Fótbolti

Fyrrum stjóri Alberts óvinsæll: „Lélegasti, falskasti og yfirlætislegasti þjálfari sem ég hef haft“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Blessin (t.v.) var rekinn í vikunni. Hann var þjálfari Genoa þegar Albert gekk í raðir félagsins í janúar.
Blessin (t.v.) var rekinn í vikunni. Hann var þjálfari Genoa þegar Albert gekk í raðir félagsins í janúar. Simone Arveda/Getty Images

Federico Marchetti, fyrrum markvörður Genoa, liðs Alberts Guðmundssonar, fer ekki fögrum orðum um fráfarandi stjóra liðsins sem var rekinn í vikunni.

Alexander Blessin var rekinn úr stöðu þjálfara hjá Genoa á þriðjudaginn var. Hann tók við liðinu í janúar á þessu ári og var sá sem fékk Albert til liðs við félagið á gluggadegi í lok janúar.

Blessin mistókst að bjarga Genoa frá falli úr A-deildinni á Ítalíu í vor og var sagt upp eftir slakt gengi liðsins í B-deildinni. Genoa situr í sjötta sæti B-deildarinnar með 23 stig, níu stigum frá toppliði Frosinone.

Marchetti hefur ekki hátt álit á kauða.Sportinfoto/DeFodi Images via Getty Images

39 ára gamli markvörðurinn Marchetti var á mála hjá Genoa frá 2018 þar til í ár, en hann var varamarkvörður hjá liðinu þar lengst af, enda kominn af sínu léttasta skeiði. Hann var áður markvörður Lazio um árabil og var í landsliðshópi Ítalíu á EM 2016.

Hann virðist hafa vægast sagt slakt álit á Blessin ef marka má ummæli sem hann setti við nýjustu færslu Blessin á samskiptamiðlinum Instagram. Marchetti hefur síðan fjarlægt ummælin sem lifa þó.

„Þú ert lélegasti, falskasti og yfirlætislegasti þjálfari sem ég hef haft á mínum langa ferli,“ segir Marchetti í færslunni.

„Þú gerðir grín að öllum Genóumönnum frá fyrsta degi, þú felldir lið sem hefði getað bjargað sér án fáránlegra fótboltahugmynda þinna,“

Fyrrum framherjinn Alberto Gilardino, sem vann HM með Ítalíu árið 2006, tók tímabundið við af Blessin en hann er þjálfari unglingaliðs Genoa. Hann stýrði Genoa til sigurs gegn Sudtirol í deildinni í gær þar sem Genoa vann langþráðan 2-0 sigur. Albert spilaði fyrstu 70 mínútur leiksins.

Reynsluboltinn Claudio Ranieri er sagður vera í sigtinu hjá félaginu um að taka við af Blessin.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×