Á fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar sem fram fór í síðustu viku var minnisblað um þetta lagt fram. Kjartani Má Kjartanssyni, bæjarstjóra Reykjanesbæjar, er falið að vinna áfram í málinu og kanna hugsanlegan kostnað við verkefnið.

„Hugmyndin gengur út á að kanna hvort það sé gáfulegt að nota þetta húsnæði undir bókasafnið sem er í húsnæðisvandræðum. Við erum bara að kanna það núna, það er ekki búið að taka neina ákvörðun,“ segir Kjartan í samtali við fréttastofu.
Hann segir að Rokksafnið yrði sett í geymslu ef hugmyndin yrði framkvæmd og því fundinn annars staður. Sem stendur er bókasafnið í ráðhúsi bæjarins en starfsemi safnsins er orðin víðtækari og þarfnast meira pláss. Verði bókasafnið flutt myndi bæjarskrifstofan nýta gamla húsnæðið.
Í fundargerð bæjarráðs segir að þetta sé liður í því að gera Hljómahöll að menningarhúsi Reykjanesbæjar til framtíðar. Sem stendur er þar, ásamt Rokksafninu, starfræktur tónlistarskóli og félagsheimilið Stapi.