Hilmar mun taka við starfinu af Guðmundi Magnúsi Kristjánssyni, einnig þekktur sem Muggi, sem lætur af störfum um áramótin eftir um tuttugu ára starf.
Á vef Ísafjarðarbæjar segir að Hilmar sé menntaður vélfræðingur og skipstjóri með rafvirkjamenntun, meirapróf og vinnuvélaréttindi.
„Hilmar lauk B-námi til skipstjórnar (SSB) frá Menntaskólanum á Ísafirði 2021. Hann lauk burtfararprófi í rafvirkjun frá Tækniskólanum 2019, var við nám í Iðnskólanum á Ísafirði 1979-1981 og Vélskóla Íslands 1981-1983 og náði sér þar í vélstjórnarmenntun. Árið 1997 lauk hann sveinsprófi í vélsmíði og varð þá vélfræðingur.
Frá 2018 hefur Hilmar starfað hjá höfnum Ísafjarðarbæjar sem hafnarvörður, vélstjóri og skipstjóri og sem staðgengill hafnarstjóra,“ segir um ráðninguna á Hilmari.
Í viðtali við Vísi í haust sagðist Guðmundur Magnús ætla að kveðja með flugeldasýningu á gamlársdag og að fyrsta verkefni hans eftir starfslok verði að læra á básúnu.