Árbæjarlón í Árbæjarhverfi var inntakslón Elliðaárstöðvar en eftir að það var tæmt hafa margir spurt: Hvað með Elliðavatn, sem með stórum stíflugarði þjónaði sem uppistöðulón virkjunarinnar?
Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2. Ólafur Kr. Guðmundsson, sem ólst upp við Elliðavatnsstíflu, lýsir því að áður hafi þetta verið tvö lítil vötn. Vatnsendavatn var Kópavogsmegin Þingness en Vatnavatn við bæinn Elliðavatn.

Í þættinum Um land allt efast Ólafur þó um að hleypt verði úr Elliðavatni.
„Ef við ættum að vera sjálfum okkur samkvæm, þá ættum við náttúrlega að rífa þennan stíflugarð og setja þetta allt í upphaflegt horf.
En ég held að það verði nú reyndar aldrei. Raskið yrði of mikið og þetta er orðið það gamalt. Þetta er orðið hundrað ára gamalt, þetta vatn,“ segir Ólafur.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri var spurður um það á íbúafundi í Árbæjarhverfi fyrr á árinu hvort Elliðavatn yrði tæmt eins og Árbæjarlón.
„Nei. Ég hef spurt eftir því og það stendur ekki til að hleypa úr Elliðavatni.
Og það eru talin ýmis rök fyrir því og það var kannski ekki beinlínis hluti af raforkuframleiðslunni á sama hátt og Árbæjarstíflan,“ svaraði borgarstjóri.

Friðþjófur Árnason, líffræðingur á Hafrannsóknastofnun, sinnir reglubundnum rannsóknum á vatninu.
„Elliðavatn er að uppruna uppistöðulón. Menn hafa nefnt það að fjarlægja stífluna og fá þetta allt bara í fyrra horf.
En það yrðu gríðarlegar breytingar á umhverfinu hérna við það. Þannig að ég held að menn þurfi að hugsa það svolítið betur heldur en bara ráðast í það að rífa stífluna, einn, tveir og þrír,“ sagði Friðþjófur.

Margir sjá þetta manngerða virkjunarlón í dag sem náttúruperlu.
„Ég held að það sé enginn vafi að þetta er fallegt vatn eins og það er núna. Og það er mikið stærra en það var fyrir aldamótin 18-1900. Þannig að ég held að það yrði nú ansi mikill söknuður ef það minnkaði um tvo þriðju kannski,“ segir líffræðingurinn.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Fjallað var um Elliðavatn og vatnasvið þess í tveimur þáttum Um land allt. Þættina má nálgast á streymisveitunni Stöð 2+.