VR, Landssambands íslenskra verslunarmanna og Starfsgreinasambandið vísuðu kjaradeilu sinni við Samtök atvinnulífsins til ríkissáttasemjara í dag. Vísuðu þau til þess að of mikið bæri á milli samningsaðila þrátt fyrir stíf fundarhöld.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagði að hugmyndir Samtaka atvinnulífsins (SA) væru allt að því niðurlægjandi fyrir launafólk fyrir helgi.
Spurður út í þau ummæli í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld sagði Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, að sér þætti leitta að heyra ummæli Ragnars Þórs.
„Ég tel enga ástæðu til að vera með þessi gífuryrði á þessum tímapunkti,“ sagði hann.
SA nálguðust samningaviðræðurnar á ábyrgan hátt en það væri sameiginlegt verkefni þeirra og verkalýðshreyfingarinnar að ná niður verðbólgu og þar með lækka vexti sem Halldór sagði líklega mesta hagsbótin fyrir íslensk heimili.
Erfitt væri að tryggja launþegum kaupmáttaraukningu þegar verðbólga mældist yfir níu prósent. SA ætli sér ekki að elta verðbólguna með launahækkunum heldur reyna að skapa skilyrði til þess að draga úr henni. Skilyrði fyrir vaxandi kaupmátt gætu þá skapast undir lok samningstímans eða við gerð næsta kjarasamnings.
Vel hafi gengið að verja kjör heimilanna og kaupmáttur fólks hafi vaxið á nýliðnum samningstíma þrátt fyrir ytri áföll eins og kórónuveirufaraldurinn.
„Núna er rétti tíminn til þess að verja þá stöðu. Stundum er gott að taka eitt skref aftur á bak til þess að taka tvö áfram síðar,“ sagði Halldór.