Birta Líf Kristinsdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir í samtali við fréttastofu að fólk ætti að fara varlega sé það á ferð, þá sérstaklega við Hafnarfjall og Kjalarnes, undir Eyjafjöllum á Öræfum og á vestanverðum Tröllaskaga.
Í kvöld er útlit fyrir aukningu í rigningu á sunnanverðu landinu. Sérstaklega verður mikil úrkoma á Suðausturlandi.
„Það er alveg vert að nefna það að það verður mikil úrkoma þar í vikunni. Það á eftir að mæða svolítið á þeim þegar fram í sækir núna,“ segir Birta.
Viðbúið er að það muni vaxa í ám á svæðinu og getur það valdið vandræðum. Veðurstofan fylgist þó vel með gangi málanna. Suðausturland getur tekið við ansi mikilli úrkomu.
„Við erum að horfa fram á næstu tvo sólarhringana rúmlega fimm hundruð millimetra á þessu svæði við fjöll. Á miðvikudag og fimmtudag er einnig talsverð úrkoma í viðbót. Það er viðbúið að þetta geti haft áhrif. Það þarf að hreinsa vel frá niðurföllum og passa að það sé greið leið fyrir vatnið. Mesta úrkoman verður á sunnan- og suðaustanverðu landinu. Við erum ekki komin með neina úrkomuviðvörun, við erum að skoða þetta. Það er um að gera að fylgjast með því,“ segir Birta.