Erlent

Stökk út um glugga til að flýja hór­mangara sinn

Bjarki Sigurðsson skrifar
Konan stökk út um glugga á þriðju hæð Emerald-mótelsins til að flýja hórmangarann.
Konan stökk út um glugga á þriðju hæð Emerald-mótelsins til að flýja hórmangarann. AP/Gene Johnson

Tvítug kona stökk út um glugga á þriðju hæð mótels til að flýja hórmangara sinn sem hafði selt hana í vændi. Hórmangarinn var handtekinn stuttu eftir að konan tilkynnti hann til lögreglu. 

AP-fréttaveitan greinir frá því að konan hafi verið flutt frá Kaliforníu-ríki í Bandaríkjunum til Seattle-borgar af hórmangaranum Winston Burt. Til að geta flúið frá honum þurfti hún að stökkva út um glugga á þriðju hæð húsnæðis sem Burt hafði leigt og hlaupa í burtu. Burt elti hana í bíl sínum en hún komst í burtu. 

Konan fékk þó ekki hjálp strax og þurfti að sitja við hlið hraðbrautar í borginni þar til Uber-bílstjóri stöðvaði og hleypti henni í bílinn. Um svipað leyti og bílstjórinn hleypti konunni í bílinn fann Burt hana. Burt reif upp byssu og skaut í átt að bílnum en skaut bjargvætturinn á móti. 

Þau náðu að flýja Burt og keyrði bílstjórinn konuna beinustu leið upp á sjúkrahús. Hún var fótbrotin, með brotin rifbein, glóðarauga og fleiri meiðsli. 

Konan tilkynnti lögreglu hvern hún hafði verið að flýja og var Burt handtekinn stuttu síðar er hann var að yfirgefa húsnæði ásamt öðrum konum sem hann hafði selt í vændi. 

Maðurinn verður ákærður fyrir mansal, vændissölu, líkamsárás og fyrir skotárásina. Hann situr nú í fangelsi í Seattle og þarf að greiða 750 þúsund dollara í tryggingu vilji hann losna, rúmar 108 milljónir íslenskra króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×