Umfjöllun: ÍBV - Grótta 34-31 | Rúnar dró vagninn gegn Seltyrningum

Einar Kárason skrifar
Rúnar Kárason var frábær í liði ÍBV í dag og skoraði ellefu mörk.
Rúnar Kárason var frábær í liði ÍBV í dag og skoraði ellefu mörk. Vísir/Vilhelm

Eyjamenn tóku á móti Gróttu í níundu umferð Olís deildar karla en Eyjamenn höfðu fyrir leik tapað tveimur deildarleikjum í röð og unnu síðast í deildinni fyrir meira en mánuði síðan.

Liðin hafa átt svipuðu gengi að fagna það sem af er leiktíðinni og spilaðist leikurinn eftir því. Fyrri hálfleikurinn var gríðarlega jafn en staðan eftir stundarfjórðung var 8-7 fyrir heimamenn, en Eyjaliðið leiddi bróðurpart hálfleiksins með einu til þremur mörkum. Undir lok hálfleiksins náði Grótta að jafna leikinn en Kári Kristján Kristjánsson, fyrirliði ÍBV, skoraði flautumark með skoti utan af velli. Eyjamenn því marki yfir í hálfleik.

ÍBV skoraði fyrsta mark síðari hálfleiks en við tók slæmur kafli hjá heimaliðinu og gengu Seltyrningar á lagið og settu fjögur mörk í röð. Við þetta vöknuðu heimamenn sem höfðu ekki skorað mark í um sjö mínútur og svöruðu með tveimur mörkum og jöfnuðu leikinn, 19-19, þegar síðari hálfleikur var tæplega tíu mínútna gamall. Gestirnir skoruðu næstu tvö en þá var skrúfað frá í sóknarleik Eyjamanna sem skoruðu sex mörk gegn einu á tíu mínútna kafla. 

Þegar skammt var eftir af leiknum leiddu heimamenn með fimm mörkum í stöðunni 32-27 en virtust ætla að gera leikinn spennandi í blálokin þegar þrjár sóknir í röð fóru forgörðum á meðan gestirnir nýttu sín færi. Munurinn eitt mark og rúm mínúta eftir. Grótta komst hinsvegar ekki lengra þar sem ÍBV skoraði síðustu tvö mörk leiksins og unnu því góðan þriggja marka sigur, 34-31, í hörkuleik.

Af hverju vann ÍBV?

ÍBV var heilt yfir betri aðilinn í leiknum og komu sér nokkrum sinnum í góða stöðu en Grótta gafst ekki upp og nýttu sér slæmu kaflana hjá Eyjaliðinu. Það reyndist gestunum erfitt að stöðva Rúnar Kárason sem var í sjötta gír í dag og skoraði tæplega 33% marka ÍBV.

Hverjir stóðu upp úr?

Markahæstur allra var Rúnar með ellefu mörk úr fimmtán skotum. Þorgeir Bjarki Davíðsson í liði Gróttu var honum næstur með sjö. Þá átti Einar Baldvin Baldvinsson góðan leik í marki gestanna en hann varði alls sextán bolta.

Hvað gekk illa?

Markvarsla heimamanna var ekki stórkostleg í kvöld. Samtals níu varin skot. Vörn Gróttu átti erfitt með Rúnar fyrir utan ásamt því að fara illa með þónokkrar sóknir.

Hvað gerist næst?

Eyjamenn fara á Ásvelli og Grótta tekur á móti Ísfirðingum í Herði á laugardaginn eftir viku.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira