Fótbolti

Fyrsta tap Manchester United kom gegn Chelsea

Smári Jökull Jónsson skrifar
Alessia Russo horfir hér á eftir boltanum í mark Chelsea en hún skoraði eina mark Manchester United í 3-1 tapi í dag.
Alessia Russo horfir hér á eftir boltanum í mark Chelsea en hún skoraði eina mark Manchester United í 3-1 tapi í dag. Vísir/Getty

Chelsea vann góðan útisigur á Manchester United í úrvalsdeild kvenna á Englandi í dag. Með sigrinum lyfti Chelsea sér upp í annað sæti deildarinnar en tapið var það fyrsta hjá United á tímabilinu.

Fyrir leikinn voru liðin jöfn að stigum, bæði með fimmtán stig. United var með fullt hús stiga eftir fimm leiki en Chelsea hafði leikið einum leik meira.

Það var markalaust í hálfleik í leiknum í dag en hlutirnir fóru heldur betur að gerast eftir hlé. Sam Kerr kom Chelsea í 1-0 á 60.mínútu og aðeins fjórum mínútum síðar skoraði Lauren James og kom Chelsea í 2-0 eftir sendingu frá Kerr.

Alessia Russo minnkaði muninn fyrir United á 71.mínútu en Erin Cuthbert gulltryggði sigur Chelsea þegar hún skoraði þriðja mark liðsins í uppbótartíma.

Með sigrinum fer Chelsea upp í annað sætið, er með átján stig eftir sjö umferðir. Efst er lið Arsenal með fullt hús stiga en Manchester United getur jafnað Chelsea að stigum vinni þær leik sem þær eiga til góða.

Önnur úrslit í ensku úrvalsdeildinni í dag:

Leicester - Arsenal 0-4

Liverpool - Aston villa 0-1

Reading - Manchester City 0-3

West Ham - Brighton 4-5




Fleiri fréttir

Sjá meira


×