Innlent

Nokkrir dagar í Ís­lands­banka­skýrslu

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Guðmundur Björgvin Helgason gegnir embætti ríkisendurskoðanda.
Guðmundur Björgvin Helgason gegnir embætti ríkisendurskoðanda. Vísir/Vilhelm

Umsagnarfrestur um skýrslu Ríkisendurskoðunar um sölu á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka rennur út í dag og nokkrir dagar eru væntanlega í birtingu.

Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi segir að nú þurfi að vinna úr þeim umsögnum sem hafa borist. Það taki væntanlega nokkra daga. 

Skýrslunnar er beðið með mikilli eftirvæntingu en upphaflega var stefnt að því að hún yrði tilbúin í júní. Um miðjan mánuð var tilkynnt að skýrsludrög hefðu verið afhent fjármála- og efnahagsráðuneyti og stjórn Bankasýslu ríkissins og veittur var umsagnarfrestur til 19. október. Hann var síðan framlengdur til og með dagsins í dag.

Í byrjun síðasta mánaðar sagði ríkisendurskoðandi tafirnar skýrast af umfangi málsins. Þá fékkst hann ekki til að greina frá neinu því sem ríkisendurskoðun hafi komist að en sagðist þó vita að hún muni „vekja athygli og fá umtal.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×