Handbolti

Haukur og félagar misstu af sæti í úrslitum eftir skell gegn Barcelona

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Haukur Þrastarson og félagar hans í Kielce fengu skell gegn Barcelona í kvöld.
Haukur Þrastarson og félagar hans í Kielce fengu skell gegn Barcelona í kvöld. EPA-EFE/GEIR

Haukur Þrastarson og félagar hans í pólska liðinu Vive Kielce máttu þola 11 marka tap er liðið mætti Barcelona í undanúrslitum heimsmeistaramóts félagsliða í handbolta í kvöld, 39-28.

Barcelona setti tóninn snemma í leiknum og náði fljótt fjögurra marka forskoti í stöðunni 7-3. Við tóku sveiflukenndar mínútur þar sem Haukur og félagar náðu að minnka muninn niður í tvö mörk í tvígang, en Börsungar juku forskot sitt á ný og fóru með fimm marka forystu inn í hálfleikinn, staðan 16-11.

Síðari hálfleikur var svo algjör einstefna þar sem Börsungar náðu mest 12 marka forskoti eftir að hafa skorað sjö mörk í röð. Það bil náðu Haukur og félagar aldrei að brúa og niðurstaðan varð því 11 marka sigur Barcelona, 39-28.

Haukur og félagar misstu því af sæti í úrslitum heimsmeistaramótsins, en Haukur skoraði eitt mark í leik kvöldsins. Barcelona er hins vegar á leið í úrslit þar sem liðið mætir ríkjandi meisturum í Íslendingaliði Magdeburg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×