Glugginn sem bestu CrossFit konur heims héldu að væri að opnast lokaðist endanlega í gær þegar heimsmeistarinn Tia-Clair Toomey tilkynnti að hún muni mæta aftur til leiks á næstu heimsleikum.
Toomey vann sinn sjötta heimsmeistaratitil í röð á síðustu heimsleikum í CrossFit og í lokagreininni tilkynnti lýsandinn að þetta væri líklegast hennar síðasta grein á ferlinum. Hann hefði fengið upplýsingar um það úr herbúðum Toomey sem svo ýtti undir það sjálf með hvernig hún endaði lokagreinina sína á dramatískan hátt.
Toomey var þarna búin að setja nýtt met yfir flesta sigra í röð og skiptir þá ekki máli hvort um karl eða konu er að ræða. Gamla metið var í eigu Matt Fraser sem vann fimm heimsmeistaratitla í röð.
Sú síðasta til að vinna heimsmeistaratitilinn og ekki heita Toomey var okkar Katrín Tanja Davíðsdóttir sem vann tvö ár í röð eða 2015 og 2016. Toomey varð í öðru sæti bæði árin en tók svo yfir og flestir sigrar hennar hafa verið afar sannfærandi.
Toomey hafði lent í smá vandræðum í byrjun keppninnar og fann þar aðeins fyrir samkeppninni frá ungum CrossFit konum en það virtist síðan bara kveikja í þeirri áströlsku sem kom sterk til baka og endaði á að vinna enn á ný með miklum yfirburðum.
Toomey eyddi ekki orðróminum strax um að hún ætlaði að hætta og um tíma héldu sumir að hún ætlaði í liðakeppnina. Þegar vikur og mánuðir liður frá leikunum fór það aftur á móti að leka út að það væri enn hugur og hungur í bestu CrossFit konu heims.
Toomey talaði um það í viðtali að hún ætlaði sér að koma aftur og í gær staðfesti hún það svo í reglulegum Youtube-þætti sínum við hlið eiginmannsins Shane Orr.
„Við héldum að það væri best að leggja spilin á borðið og að þið mynduð heyra þetta beint frá okkur. Ég ætla að keppa í eitt ár í viðbót, sagði Tia-Clair Toomey.
Þeir sem vildu sjá keppni án hennar fá tækifæri til að sjá það á Rogue Invitational mótinu seinna í þessum mánuði þar sem Anníe Mist Þórisdóttir verður meðal keppenda. Toomey verður á svæðinu í Austin í Texas fylki en mun ekki keppa.