Fótbolti

Úlfarnir ætla ekki að ráða þjálfara fyrr en eftir áramót

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Bráðabirgaðstjórinn Steve Davis verður við stjórnvölin hjá Úlfunum út þetta ár í það minnsta.
Bráðabirgaðstjórinn Steve Davis verður við stjórnvölin hjá Úlfunum út þetta ár í það minnsta. Malcolm Couzens/Getty Images

Enska úrvalsdeildarfélagið Wolves ætlar ekki að ráða nýjan þjálfara fyrr en eftir áramót þrátt fyrir að nú séu tæpar þrjár vikur frá því að Bruno Lage hafi verið látinn fara frá félaginu. Bráðabirgðastjórinn Steve Davis mun því stýra liðinu fram á næsta ár.

Davis tók við sem bráðabirgðastjóri liðsins eftir að Lage var látinn taka poka sinn þann 2. október. Síðan þá hefur Davis stýrt liðinu í þremur leikjum þar sem liðið hefur tapað tveim og unnið einn.

Úlfarnir hafa verið í viðræðum við tvo mögulega arftaka Lage eftir að Portúgalinn var látinn fara, en báðir hafa þeir hafnað starfinu. Félagið ræddi við Julen Lopetegui, fyrrum þjálfara spænska landsliðsins, og nú síðast Michael Beale, núverandi knattspyrnustjóra QPR.

Eftir að hafa fengið nei frá þeim báðum hefur félagið ákveðið að bíða fram á nýtt ár með það að ráða inn nýjan stjóra í starfið.

„Við ætlum okkur ekki að flýta okkur um of í leit okkar að nýjum þjálfara og munum ekki gera neinar málamiðlanir í okkar nálgun á því sem við teljum vera hinn fullkomna einstakling fyrir félagið okkar og liðið hér hjá Wolves,“ sagði Jeff Shi, stjórnarformaður Wolves.

Úlfarnir eiga enn eftir að leika fimm leiki áður en heismeistaramótið í Katar hefst í næsta mánuði, auk þeirra leikja sem fara fram um jólahátíðina í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×