Fyrirkomulag keppninnar er eins og áður, fólk sendir inn óútgefið lag á netfangið sykurmolinn@x977.is. Keppt er bæði í karla og kvennaflokki og er verðlaunafé að upphæð 250.000 krónur veitt fyrir efsta sæti í báðum flokkum.
Ómar, dagskrárstjóri X977, heldur utan um keppnina í ár og er spenntur að sjá það sem íslenska tónlistarsenan skilar af sér í ár.
„Það er um að gera að rýna í þennan gríðarlega frumkraft sem býr í grasrótinni, sem virðist hreinlega hafa aukist í faraldrinum. Ung og efnileg bönd dæla út gæða efni þessa daga sem aldrei fyrr og það eru forréttindi að fylgjast með og fjalla um þetta efnilega tónlistarfólk, “ segir Ómar.
Sigurvegarar bókaðir víða um heim
Keppnin hefur vakið mikla eftirtekt þar sem síðustu sigurvegarar hafa fengið plötusamninga og eru nú bókuð á margar helstu tónlistarhátíðir hér heima og erlendis. Keppnin var síðast haldin 2020 og þá voru það Possimiste og hljómsveitin SuperSerious sem tóku vinninginn.
Possimiste gaf út sína fyrstu plötu í fyrra sem ber nafnið Younivers. Hljómsveitin SuperSerious eru stanslaust að gera tónlist og er breiðskífa væntanlega á næsta, fyrsta lagið af henni kemur út 21. Október og heitir Bye Bye Honey. Daníel jón, annar söngvara Superserious, sagði að keppnin hafi hjálpað sveitinni mikið að koma sér á framfæri og voru þau tilnefnd til hlustendaverðlaunanna fyrir árið 2021.
Keppnin í ár er í samstarfi við Orku Náttúrunnar.