Fótbolti

Union Ber­lín á­fram á toppnum | Napoli á toppi Serie A

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Union Berlín er óvænt á toppi þýsku úrvalsdeildarinnar.
Union Berlín er óvænt á toppi þýsku úrvalsdeildarinnar. EPA-EFE/FILIP SINGER

Union Berlín, topplið þýsku úrvalsdeildarinnar, gerði sér lítið fyrir og vann Borussia Dortmund 2-0 í þýsku úrvalsdeildinni í dag.

Berlínarmenn byrjuðu frábærlega og skoraði Janik Haberer tvisvar á fyrstu tuttugu mínútum leiksins. Staðan orðin 2-0 Union í vil og reyndist það of stór biti fyrir Dortmund. Það skipti litlu þó Marco Reus, Giovanni Reyna, Donyell Malen, Thorgan Hazard og Julian Brandt hafi allir komið inn af bekknum. Ekki tókst Dortmund að skora.

Union Berlín er því áfram á toppi þýsku úrvalsdeildarinnar, nú með 23 stig. Þar á eftir koma Þýskalandsmeistarar Bayern München með 19 stig. Þeir unnu 5-0 sigur á Freiburg í dag. Mörkin skorðu þeir Serge Gnabry, Eric Maxim Choupo-Moting, Leroy Sané, Sadio Mané og Marcel Sabitzer.

Á Ítalíu er Napoli á toppnum eftir 3-2 sigur á Bologna í dag. Joshua Zirkzee kom gestunum í Bologna yfir en Juan Jesus jafnaði metin undir lok fyrri hálfleiks. Í upphafi þess síðari skoraði varamaðurinn Hirving Lozano en Musa Barrow jafnaði fyrir Bologna skömmu síðar.

Hinn magnaði magnaði Victor Osimhen tryggði hins vegar Napoli sigur og þar með toppsætið þegar 10 umferðir eru búnar. Þá vann AC Milan 2-1 sigur á Verona þökk sé sigurmarki Sandro Tonalo undir lok leiks.

Staðan í deildinni er því þannig að Napoli er með 26 stig á toppnum, Atalanta kemur þar á eftir með 24 á meðan AC Milan er í þriðja sætinu með 23 stig.

Frakklandsmeistarar París Saint-Germain unnu 1-0 sigur á Marseille í frönsku úrvalsdeildinni þökk sé marki Neymar undir lok fyrri hálfleiks. Í síðari hálfleik fékk varamaðurinn Samuel Gigot rautt spjald fyrir brot sem aftasti maður en hann kom inn af bekknum í fyrri hálfleik fyrir hinn meidda lánsmann Eric Bailly.

Parísarliðið er nú með 29 stig á toppi frönsku úrvalsdeildarinnar eftir 11 umferðir en Lorient er óvænt í öðru sæti með 26 stig. Marseille er í 4. sæti með 23 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×