Tvær konur og einn karlmaður voru úrskurðuð í vikulangt gæsluvarðhald í gær vegna manndráps á Ólafsfirði í fyrrinótt en fjögur voru handtekin á vettvangi. Samkvæmt heimildum frétttastofu var karlmaður á fimmtugsaldri stunginn til bana en einn til viðbótar var stunginn og fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar.
Sigríður Ingvarsdóttir, bæjarstjóri Fjallabyggðar, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að samfélagið á Ólafsfirði væri skekið vegna málins. Kyrrðarstund var haldin í Ólafsfjarðarkirkju í gærkvöldi sem nokkrir sóttu en Rauði krossinn hefur einnig boðið upp á áfallahjálp.
„Það voru aðilar úr viðbragðshópnum okkar sem voru til aðstoðar í kirkjunni og ég veit að það var rennerí af fólki sem var að koma yfir allan daginn. Svo var kyrrðarstund klukkan átta og það mættu nokkrir þangað. Svo voru nokkrir sem nýttu sér að ræða við viðbragðsaðilana okkar á staðnum,“ segir Elfa Dögg S. Leifsdóttir, teymisstjóri heilbrigðisverkefna hjá Rauða krossinum.
Boðið verði áfram upp á áfallahjálp næstu daga.
„Við verðum auðvitað eins lengi og þarf og komum líka stundum að fræðslu og annað, til dæmis fyrir foreldra hvernig á að ræða við börnin um slík atvik,“ segir Elfa.

Atvik sem þetta geti haft gríðarleg áhrif á lítil samfélög líkt og á Ólafsfirði.
„Það vita það allir sem búa í slíkum samfélögum að það hefur öðruvísi áhrif. Það eru meiri tengingar sem þarf að huga að og auðvitað þekkjast margir. Í smáum samfélögum er það ekki þannig að allir þekki alla en margir þekkja marga þannig að þetta hefur víðtæk áhrif inn í allt samfélagið, skólakerfið og vinnustaðina. “
Arnfríður Gígja Arngrímsdóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra, sem fer með rannsókn málsins, sagðist í samtali við fréttastofu í morgun ekkert nýtt hafa um rannsókn málsins að segja að svo stöddu.