Messi skoraði tvö mörk í 3-0 sigri Argentínu og Jamaíku í vináttulandsleik í Bandaríkjunum í nótt. Þetta var fyrsti leikur jamaíska liðsins undir stjórn Heimis Hallgrímssonar.
Messi var slappur fyrir leik og byrjaði því á bekknum. Hann kom inn á sem varamaður í upphafi seinni hálfleiks. Á 87. mínútu kom Messi Argentínu í 2-0 með langskoti og tveimur mínútum síðar skoraði hann með skoti beint úr aukaspyrnu.
Eftir annað markið hljóp aðdáandi að Messi sem var greinilega brugðið. Aðdáandinn sneri sér við og benti Messi á að árita á sér bakið. Messi tók pennann af manninum og byrjaði að skrifa áður en öryggisverðir skárust í leikinn.
Lionel Messi about to sign an autograph for a pitch invader.pic.twitter.com/rfh8xOC3Xc
— Mundo Albiceleste (@MundoAlbicelest) September 28, 2022
Messi hefur nú skorað níutíu landsliðsmörk í 164 leikjum. Hann skoraði einnig tvö mörk þegar Argentína sigraði Hondúras, 3-0, í vináttulandsleik á laugardaginn.
Argentína hefur unnið sjö af átta leikjum sínum á þessu ári og er taplaust í síðustu 35 leikjum sínum. Argentínumenn eru í riðli með Sadí-Aröbum, Mexíkóum og Pólverjum á HM.