Réttað er nú í stærstu stóðrétt landsins, Laufskálarétt en rekstrarstörf hófumst klukkan hálf tólf og réttirnar sjálfar hefjast klukkan 13:00 . Mikill mannfjöldi er á svæðinu enda stóðréttir alltaf mikill menningarviðburður og skemmtun í leiðinni.
Stóðrekstarstjóri er Ólafur Sigurgeirsson á Kálfsstöðum.
„Það gekk vel að smala. Við gáðum í dalina síðustu helgi í rjóma blíðu og svo sóttum við hrossin i dalinn og rákum þau til réttar á réttardaginn,“ segir Ólafur.
Ólafur segir að það sé fyrst og fremst Kolbeinsdalur, sem sé smalaður og tveir afdalir af honum, eða Heljardalur og Skíðadalur, sem þarf að líta inn í og athuga hvort það standi einhver hross eftir þar. Kolbeinsdalur er um 15 kílómetrar.

En hvernig er ástandið á hrossunum í réttunum eftir sumarið?
„Það er nú grasár auðvitað og hross eru feit og kannski of feit, það verður að fara að gá að sér að hross verði ekki of feit.“
Ólafur segir að hrossum sé alltaf að fækka og fækka í réttunum, enda séu þau ekki nema um 300 í ár.
Og þessar réttir, þær eru mjög vinsælar?
„Já, já, enda reynum við að hafa gaman af hvert öðru hérna, taka lagið og skemmta okkur, þetta er gleðidagur.
Það er svona spennandi andrúmsloft þegar margir hestamenn víða að koma saman,“ segir Ólafur enn fremur.
Í kvöld er síðan réttarball og gleði langt fram eftir nóttu að hætti Skagfirðinga.