Handbolti

Óli Stef ætlaði að verða eins og Sócrates

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Vart finnast áhugaverðari íþróttamenn en Ólafur Stefánsson og Sócrates.
Vart finnast áhugaverðari íþróttamenn en Ólafur Stefánsson og Sócrates. vísir/getty

Ólafur Stefánsson ætlaði að feta í fótspor hetjunnar sinnar, allt þar til símtal frá þýsku félagsliði kom.

Ólafur, sem er jafnan talinn einn besti handboltamaður allra tíma, segir sögu sína á heimasíðu Evrópska handknattleikssambandsins, EHF.

Þar segir hann meðal annars frá því þegar hann breytti um kúrs um miðjan 10. áratug síðustu aldar og ákvað að leggja atvinnumennsku í handbolta fyrir sig.

Faðir Ólafs, Stefán Eggertsson, lærði læknisfræði í Svíþjóð og hann ætlaði að feta í fótspor hans. Ólafur átti sér líka aðra fyrirmynd sem var læknismenntaður íþróttamaður.

„Ein af fyrirmyndunum mínum á þessum tíma var brasilískur fótboltamaður, Sócrates, sem starfaði sem barnalæknir og það ætlaði ég líka að gera,“ skrifaði Ólafur.

„En þá fengum við Dagur [Sigurðsson] símtal frá þýska félaginu Wuppertal og okkur var boðinn atvinnumannasamningur. Við samþykktum tilboð þeirra, aðallega því Wuppertal var með íslenskan þjálfara, Viggó Sigurðsson.“

Hjá Wuppertal spiluðu þeir Ólafur og Dagur einnig með Geir Sveinssyni og Valdimar Grímssyni. Ólafur var tvö ár í herbúðum Wuppertal. Á því fyrsta komst liðið upp úr B-deildinni í úrvalsdeildina. Eftir eitt tímabil þar gekk hann svo til liðs við Magdeburg þar sem hann naut mikillar velgengni.

Sócrates, sá sem Ólafur leit svo mikið upp til, lék sextíu leiki fyrir brasilíska landsliðið og skoraði 22 mörk. Hann lék með Botafogo, Corinthians, Flamengo og Santos í heimalandinu og Fiorentina á Ítalíu.

Auk þess að vera fótboltamaður og læknir var Sócrates mikill hugsuður og strangtrúaður kommúnisti. Hann lést 1. desember 2011, 57 ára að aldri. Hann lét eftir sig eiginkonu og sex börn.

Ólafur er í dag aðstoðarþjálfari þýska úrvalsdeildarliðsins Erlangen. Hann tók við starfinu í mars síðastliðnum. Hann hafði þá verið í fríi frá þjálfun í nokkur ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×