Innlent

Biðla til fólks um að taka ekki myndskeið af vettvangi slysa

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla biðlar til fólks að skapa ekki hættu með myndatökum í umferðinni.
Lögregla biðlar til fólks að skapa ekki hættu með myndatökum í umferðinni. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu biðlar til ökumanna og annarra að taka ekki upp myndskeið af vettvangi slysa þar sem það skapar mikla hættu fyrir lögreglumenn og aðra vegfarendur. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu um verkefni gærkvöldsins og næturinnar en þar segir að umferðardeild hafi stöðvað sjö ökumenn og sektar fyrir notkun farsíma, þar sem þeir voru að taka myndskeið af vettvangi slyss.

Lögregla biðlar til fólks um að sýna nærgætni, þar sem oft sé um alvarleg slys að ræða og upptökur með öllu óviðeigandi.

Lögreglu bárust annars tvær tilkynningar upp úr klukkan þrjú þar sem annars vegar var látið vita af manni með eggvopn fyrir utan hús í austurborginni og hins vegar af manni sem lét öllum illum látum fyrir utan hús; sparkaði í hurðir og glugga.

Sá var handtekinn en maðurinn með eggvopnið fannst ekki.

Fyrr um nóttina barst tilkynning um yfirstandandi innbrot í umdæminu Grafarvogur/Mosfellsbær/Árbær og náðist innbrotsþjófurinn skammt frá vettvangi.

Slökkvilið sinnti útkalli vegna elds í bifreið. Slökkvistarf gekk greiðlega en ekki er vitað hvernig kviknaði í bílnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×