Erlent

Kleif Gler­brotið ber­fættur

Árni Sæberg skrifar
Fáir hafa komist þangað sem Adam Lockwood komst í dag.
Fáir hafa komist þangað sem Adam Lockwood komst í dag. Facebook/Adam Lockwood

Ungur Breti var handtekinn í Lundúnum í dag fyrir að hafa í leyfisleysi klifið skýjakljúfinn Glerbrotið í morgun. Það gerði hann berfættur. 

Adam Lockwood birti mynd á Facebooksíðu sinni í morgun sem væri ekki í frásögur færandi ef myndin sýndi hann ekki beran að ofan og berfættan ofan á hinu himinháa Glerbroti.

Lockwood virðist finnast þægilegra að klifra berfættur.Facebook/Adam Lockwood

Athæfi Lockwoods vakti mikla athygli í dag enda ekki á hverjum degi sem menn klífa skýjakljúfa. Hjónin Paul og Treasaidh Curphey voru meðal þeirra sem tóku eftir Lockwood þegar hann veifaði þeim inn um glugga á hótelherbergi þeirra á fertugustu hæð.

„Klifrarinn var að öskra eins og hann væri að fagna. Hann birtist, veifandi inn um gluggann á fertugustu hæð. Þegar kominn í djúpu laugina, ef svo má segja. Við gátum ekki annað en hvatt hann til dáða,“ segir Paul í samtali við The Guardian.

Sem áður segir var Lockwood handtekinn fyrir athæfið en lögregla var kölluð til þegar sást til hans að klifra upp húsið. Ásamt honum voru tveir vitorðsmenn hans handteknir fyrir óspektir á almannafæri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×