Að því er kemur fram í tilkynningu frá Verkalýðsfélagi Suðurlands hefur 31 félagsmaður óskað eftir aðstoð vegna gruns um launaþjófnað í sumar. Í grófustu tilfellunum nemi meintur þjófnaður allt að 900 þúsund króna, auk þess sem dæmi séu um að starfsfólk hafi verið látið vinna allt að 400 stundir á mánuði.
„Við höfum ekki þurft að fara fyrir dóm með neitt af þessu en ég get sagt að af þessu 31 máli þá eru 19 enn í vinnslu. Það hefur svona gengið þokkalega en hvergi nærri því nógu vel,“ segir Ástþór Jón Ragnheiðarson, eftirlitsfulltrúi hjá Verkalýðsfélagi Suðurlands.
Um sé að ræða gríðarlegan fjölda þegar litið er til stærðar félagsins en mest megnis séu þetta starfsfólk úr ferðaþjónustu.
„Þetta blasir við okkur sem grafalvarleg staða og kannski svolítið sorglegt fyrir ferðaþjónustuna, sem er ítrekað talað um sem er talað um sem gjaldeyrisskapandi gullegg okkar Íslendinga, en þetta er ekkert gullegg fyrir þá sem verða fyrir barðinu á launaþjófnaði,“ segir Ástþór.
Engin viðurlög við launaþjófnaði
Mikil umræða hefur skapast um launaþjófnað undanfarið, ekki síst eftir að eigendur Flame og Bambus voru sakaðir um að svíkja þrjá starfsmenn um vaktaálag, yfirvinnu og orlof. Eigendurnir segja ásakanirnar rangar en Fagfélögin hafa krafið eigendurna um 13 milljónir króna í ógreidd laun.
Verkefnastjóri vinnustaðaeftirlits ASÍ greindi þá frá því í kvöldfréttum Stöðvar 2 á dögunum að málum sem tengjast launaþjófnaði fari fjölgandi. Þörf væri þörf á frekari úrræðum og viðurlögum.
„Launaþjófnaður er ekkert annað en þjófnaður og eðli málsins samkvæmt þá ætti það náttúrulega bara að vera brot á hegningarlögum eins og hver annar þjófnaður,“ segir Ástþór en mál tengd launaþjófnaði séu hins vegar þess eðlis að það sé erfiðara að fara með þau í þann farveg.
Hann segir því nauðsynlegt að stjórnvöld og viðkomandi aðilar komi með alvöru viðurlög. „Það eru þannig lagað engin viðurlög sem að atvinnurekendur fá á sig fyrir að brjóta á réttindum fólks,“ segir hann og bindur sömuleiðis vonir við kjaraviðræður í haust.
„Ég vona bara að allir komi til kjarasamninga, að samninganefndir verði hörð á þessu,“ segir hann enn fremur.