Sem betur fer hefur veðrið lægt frá því að íslenska liðið var til æfinga í gær og fyrradag og útlitið fínt fyrir leik dagsins. Sveindís segir íslenska liðið hafa farið sérstaklega yfir Evrópumót sumarsins þegar það kom saman og sett það mót endanlega í bakspegilinn.
„Stemningin í hópnum er góð og við erum allar búnar að komast yfir EM. Við tókum fund fyrir tveimur dögum, þegar við komum, og lokuðum þessu alveg þannig að EM er bara búið hjá okkur núna,“ segir Sveindís sem segir gott að hafa þetta verkefni í undankeppni HM til að einblína á í kjölfarið.
„Jú, auðvitað það væri lang best. Það væri bara klikkað að komast beint á HM og vinna riðilinn sem við erum í. Þetta er alveg erfiður riðill og það er auðvitað markmiðið að vinna þessa tvo leiki sem við eigum eftir og komast beint á HM,“
Um verkefni dagsins og hvítrússneska liðið segir Sveindís:
„Ef við vinnum hann erum við komnar í mjög góða stöðu. Þá dugar okkur auðvitað jafntefli við Holland [til að fara beint á HM]. En við erum fyrst og fremst að pæla í þessum Hvít-Rússa leik. Þetta getur alveg verið erfitt og ef ég man rétt þá vann Hvíta-Rússland Tékka síðast, það eru geggjuð úrslit og sýnir að Hvíta-Rússland er með fínt lið og geta gert góða hluti,“
Hraðinn meðfæddur
Athygli vakti á EM í sumar að Sveindís var með lang hraðasta sprett mótsins, og því hægt að færa rök fyrir því að hún sé sneggsti leikmaður Evrópu. Hún kveðst þó geta hlaupið hraðar en mælingarnar frá EM gáfu til kynna.
„Ég held að þetta sé meðfætt. Það er geðveikt að ég geti hlaupið svona hratt og ég er bara mjög sátt með það. Ég náttúrulega hefði alveg getað hlaupið hraðar, þetta er ekki hraðasti spretturinn minn á ævinni. En ég er ánægð með þetta,“
„Ég hef oft pælt í því hvernig það er að láta hlaupa framhjá sér,“ segir Sveindís sem hefur eðli málsins samkvæmt ekki mikla reynslu af því.