Bala er hagfræðingur frá Indlandi sem menntaði sig í Bandaríkjunum. Bala fluttist til Íslands árið 2003 og hefur frá því árið 2009 einbeitt sér að nýsköpunarumhverfinu á Íslandi.
Enda starfar enginn í heimi nýsköpunar án þess að hafa heyrt nafnið Bala!
Nú þegar haustið er framundan og mörg nýsköpunarverkefni að fara á fullt, ætlum við að fá góð ráð frá Bala um fjármögnun nýsköpunarfyrirtækja.
Annars vegar hvaða ráð Bala gefur frumkvöðlum sem eru að leita að fjárfestum en hins vegar góð ráð fyrir fjárfesta sem vilja fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum.
Frumkvöðlar að leita að fjárfestum: Lausnin dregur þá að
Bala viðurkennir að strangt til tekið finnist honum frumkvöðlar ekki eiga að leita af fjárfestum.
Staðan ætti frekar að vera sú að fjárfestar ættu að vera að leita af framúrskarandi frumkvöðlum.
Sem ráð til frumkvöðla sem eru að leita að fjárfestum, segir Bala hins vegar:
„Á þessum áratug sem ég hef starfað með stofnendum og frumkvöðlum hef ég ítrekað upplifað að fjárfestar koma sjálfir að þeim verkefnum þar sem búið er að leysa úr einverju vandamáli með nýrri lausn. Þess vegna hvet ég frumkvöðla alltaf til þess að einbeita sér að lausninni sjálfri og þá á þann háttinn að það kosti þá sem minnstan pening.“
Til dæmis hvetur Bala frumkvöðla til þess að hætta ekki að vinna strax.
„Margir frumkvöðlar hræðast þá tilhugsun að hætta í launaðri vinnu til þess að demba sér í nýsköpun. Því þetta er erfið áhætta að taka og það er rétt mat hjá þeim. Þess vegna hvet ég frumkvöðla alltaf til að halda áfram í dagvinnunni en nota kvöld og helgar til að sinna nýsköpunarverkefninu sínu.“
Bala segir fólk oft ekki átta sig á því, hversu oft er hægt að vinna að nýsköpuninni þannig.
Trúið mér: Það er fullt af nýsköpunarhugmyndum og lausnum sem er hægt að vinna að á þennan hátt.
Þetta eru hreinlega lausnir sem kalla ekki strax á fjármagn, en þurfa svigrúm sem nýsköpun að verða til.
Því í raun er fjármagn ekkert annað en leið til að leysa úr peningavandamálum
En hvernig geta frumkvöðlar gert þetta?
„Allar nýjar lausnir kalla fram ótal spurningar. Og ef frumkvöðlarnir einbeita sér að lausninni og því að geta svarað öllum spurningum sem upp koma geta þeir oft komist ótrúlega langt. Að einbeita sér alltaf fyrst og fremst að lausninni sem verið er að búa til er því aðalmálið. Enda eru peningar engin nýsköpun.“

Fjárfestar að meta nýsköpun: Auðvelt og erfitt
Bala segir það mismunandi hversu auðvelt eða erfitt það getur verið fyrir fjárfesta að meta nýsköpun. Oft vanti hreinlega upp á þeirra eigin þekkingu á því hvernig það er að byggja fyrirtæki upp frá grunni.
„Ef þessi þekking er ekki til staðar er erfiðara fyrir fjárfestinn að meta nýsköpunarfyrirtækið og oft eru þetta ekkert góðir fjárfestar fyrir nýsköpun. En þeir sem þekkja þetta, eiga auðveldara með þessar fjárfestingar því þeir átta sig betur á því hvert þeirra hlutverk er. Og finnst gefandi að upplifa frumkvöðla verða að leiðtogum.“
Rétt tímasetning, rétt viðhorf
Sjálfur hefur Bala fjárfest í nýsköpunarfyrirtækjum og náð góðum árangri. Hans stefna er hins vegar sú að fjárfesta eingöngu í nýsköpun á frumstigi, eða sem á ensku er kallað Seed Stage eða Pre-seed.
„Ég fjárfesti eingöngu í nýsköpun á frumstigi sem þýðir að það er í rauninni ekki fjármagnið sem er að leysa úr erfiðustu málunum. Og tek þá þátt í því að vinna með frumkvöðlunum að því að koma verkefninu betur á laggirnar.“
Þessi stefna Bala er reyndar sambærileg og margir þekktir fjárfestar í nýsköpun fylgja. Þar á meðal Fred Wilson sem meðal annars hefur fjárfest í fyrirtækjum eins og Twitter, Tumblr, Kickstarter og Etsy þegar þessi fyrirtæki voru rétt að fæðast.
Bala segir Wilson einmitt hafa talað fyrir því að bæði frumkvöðlar og fjárfestar eigi að horfa á þetta upphaf sem aðaltímann. Því ef frumkvöðlarnir stökkva of hratt á fjármagn vegna þess að biðin eftir lausafé reynir svo mikið á, enda þeir oft með að missa of mikið af sinni sneið því fjárfestarnir vilja ráða of miklu. Fjárfestar ættu sömuleiðis að horfa meira til frumkvöðlanna í upphafi, sérstaklega þeirra sem ná að vermeta hugmyndina sína vel og sýna að þeir eru með gott fólk í liði með sér. Þá sé rétt að leggja pening í fjárfestinguna og yfirgefa síðan fyrirtækið þegar aðrir fjárfestar eru tilbúnir til að koma að borði.
„Flestum finnst þetta erfið leið en fyrir mér er þetta akkúrat rétta leiðin.“
Þá segir Bala viðhorf margra til fjármagns ekkert endilega rétt þegar kemur að nýsköpun.
Persónulega eyði ég því ekki miklum tíma í að hugsa um eða meta hvert verðmatið ætti helst að vera.
Því það skiptir engu máli hversu klár þú ert, á endanum ertu bara fjárfestir sem þarft að treysta á dómgreindina þína, bakgrunn og þekkingu.
Það eru margir sem trúa því að fjármagn leysi allt og að það sé fjármagnið sem auki verðgildi fyrirtækisins.
En þannig virkar ekki nýsköpun.“