„Það er mjög ánægjulegt að sjá þessa frábæru viðspyrnu í sölu bóka til erlendra ferðamanna,“ segir Egill Örn í samtali við Vísi.
Fjöldi titla uppseldur
Að sögn framkvæmdastjórans hafði það veruleg áhrif á tekjuhlið Forlagsins þegar ferðamennirnir hurfu í Covid-ástandinu. Sala á bókum til erlendra ferðamanna hefur verið einn mikilvægasti tekjupóstur fyrirtækisins og hann núllaðist nánast algerlega í tvö ár. „Þetta kemur til með að skipta okkur miklu máli,“ segir Egill Örn.
Egill segir að nú er svo komið að endurprentunarvélarnar hafi verið ræstar um það bil hálfu ári fyrr en áætlanir gerðu ráð fyrir þar sem fjöldi titla er uppseldur eða við það að seljast upp. Yfirleitt er prentað inn í ferðabókalistann einu sinni á ári, í upphafi hvers árs, en nú er verið að ræsa vélarnar í ágúst, eftir frábært ferðamannasumar.
Hugleikur og Pilkington höfða til ferðamannsins
En hvaða bækur eru þetta sem höfða einkum til erlendra ferðamanna? Það kemur líklega engum á óvart að gríðarlegur kippur hefur komið í sölu bóka um eldgos.

„En nokkur fjöldi slíkra titla var fyrir á markaðnum, meðal annars um „fyrra eldgosið“ við Fagradalsfjall. Eldgosið er nú þegar að hafa mjög jákvæð áhrif á bóksölu til erlendra ferðamanna,“ segir Egill Örn.
En það eru ekki einungis landafræði og jarðfræði sem höfða til erlendra ferðamanna. Að sögn Egils er til að mynda athyglisvert að sjá að bækur Hugleiks eru með allra vinsælustu bókum fyrir erlenda ferðamenn í dag.
„Sömuleiðis eru bækur Brian Pilkington að mokast út í bílförmum. Líklega hefur samsetning ferðamanna töluvert um þetta að segja. Umtalsvert fleiri frá Bandaríkjunum en færri frá til dæmis Asíu. Jájá, það eru ekki bara hótel og bílaleigubílar sem seljast upp, bækur eru sömuleiðis að seljast upp,“ segir Egill Örn ánægður með gang mála.
