Brynja Gísladóttir er sigurvegari gönguleiksins sem er samstarfsverkefni UMFÍ, Vísis og Optical Studio. Brynja deildi skemmtilegum myndum frá Hafrahvammagljúfri á Kárahnjúkum en leikurinn gekk út á að fara í gönguferð á einhverri af gönguleiðunum úr Göngubók UMFÍ og deila af því mynd á samfélagsmiðlum með myllumerkinu #göngumumísland. Brynja hlýtur glæsileg Oakley sólgleraugu frá Optical studio að eigin vali.
Brynja lét veðrið ekki stoppa sig og segir gljúfrin alltaf stórfengleg og enn meiri upplifun að skoða í „smá rigningu og þoku.“ Hún er mikil útivistarmanneskja og hefur gengið Austurlandið þvert og endilangt og allar helstu gönguleiðirnar í Fljótsdalshéraði þar sem hún býr. Hennar uppáhalds gönguleið er Stapavík þar sem gengið er meðfram fjörunni að „hjara veraldar.“
Við óskum Brynju til hamingju með nýju Oakley gleraugun.