Við heyrum í fréttamanni okkar sem staddur er í Vestmannaeyjum í beinni útsendingu og mun hann lýsa stemningunni sem var í dalnum í gær.
Þá förum við yfir vetrarveðrið í júlí en skálaverðir í Öskju ráku upp stór augu þegar þeir vöknuðu í snjókomu í morgun. Snjó kyngdi niður á miðhálendinu en gular viðvaranir eru á svæðinu yfir helgina. Við ræðum við skálavörð.
Rúmlega sextugur karlmaður hefur verið sakfelldur í Katalóníu á Spáni fyrir að hafa banað 17 ára unglingi. Maðurinn hitti unglinginn aldrei og þeir höfðu einungis átt í samskiptum í einn sólarhring. Við förum yfir málið í hádegisfréttum.
Þá höldum við áfram umfjöllun um stríðið í Úkraínu, kynnum okkur flóð í Bandaríkjunum og heyrum í forseta Íslands sem beindi orðum sínum að ósæmilegri hegðun foreldra á íþróttaleikjum barna við setningu Unglingalandsmóts í gær.
Þetta og fleira í hádegisfréttum Bylgjunnar.