Mótmælin hefjast klukkan hálf sex á Austurvelli en að þeim standa Samtök um dýravelferð, Samtök grænkera á Íslandi auk tveggja erlendra dýravelferðarsamtaka. Valgerður Árnadóttir formaður samtaka grænkera segir kröfu mótmælenda skýra.
„Það er bara að hvalveiðar verði með öllu bannaðar. Við erum eitt af þremur löndum í heiminum sem leyfum hvalveiðar. Við erum eina landið í heiminum sem er að veiða hvali. Og okkur finnst sorglegt að við Íslendingar verðum síðasta þjóð í heimi til að banna og hætta hvalveiðum,“ segir Valgerður.
„Við í Samtökum grænkera skipulögðum mótmæli einmitt 2018 nokkrum sinnum sem vöktu mikla athygli bæði hér heima og erlendis. Og þetta er okkur hjartans mál og ætti að vera okkur öllum hjartans mál, að láta þetta ekki líðast lengur.“
Skilur erfiða stöðu Svandísar
Ræðumenn á mótmælunum verða Edda Elísabet Magnúsdóttir doktor í sjávarlíffræði, Margrét Tryggvadóttir, rithöfundur og fyrrverandi þingmaður, og Valgerður sjálf. Hún hefur ekki tölu á því hversu margir dýraverndarsinnar tengdir erlendu samtökunum hafi boðað komu sína.
„Það eru aðilar bæði sem búa bara hér á landi og tilheyra þeim og líka sem hafa ferðast hingað og eru að fylgjast með við hvalstöðina og annað.“
Matvælaráðherra boðaði fyrr í mánuðinum umfangsmiklar breytingar á reglum um hvalveiðar; til dæmis að dýravelferðarfulltrúi verði að vera um borð í hvalveiðibátum til að mynda veiðar. Valgerður er ekki bjartsýn á að það hafi áhrif.
„Ég skil að Svandís Svavarsdóttir er í erfiðri stöðu í þessu ríkisstjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Þar sem VG er í stefnu sinni á móti hvalveiðum. Ég sé alveg að hún er að reyna að gera eitthvað til að koma til móts við þá eftirspurn að þetta sé bannað en ég hef ekki séð þessa dýraverndarfulltrúa fara út með hval og ég hugsa að Kristjáni Loftssyni takist, eins og í öll þau skipti sem hann er sakaður um að brjóta lög og reglugerðir, þá hefur honum samt tekist að halda áfram.“