Eftir að maðurinn hneig niður á laugardag veittu bráðaliðar hjá þjóðgarðinum fyrstu aðstoð ásamt starfsfólki þjóðgarðsins. Lífgunartilraunir báru ekki árangur og var maðurinn úrskurðaður látinn á staðnum.
Mikill viðbúnaður lögreglu var á staðnum, lögregla og sjúkraflutningamenn voru kölluð út frá Reykjavík og frá Selfossi auk þess sem þyrla frá Landhelgisgæslu lenti á svæðinu. Lögreglan á Suðurlandi segir málið vera í rannsókn en að ekki væri um slys að ræða heldur væri andlátið líklega af náttúrulegum ástæðum. Þá væri enginn grunur um neitt saknæmt.
Aukinn fjöldi ferðamanna auki líkur á að eitthvað gerist
Blaðamaður Vísis hafði samband við Einar Á. E. Sæmundsen, þjóðgarðsvörð, sem sagði að sjúkraflutningamaður hjá þjóðgarðinum hefði komið fljótt á staðinn og að þær endurlífgunartilraunir sem hófust strax í kjölfarið hafi ekki borið árangur.
Einar sagði að með auknum fjölda ferðamanna séu auknar líkur á að eitthvað á borð við þetta geti gerst. Það séu hins vegar oftar slys sem eigi sér stað frekar en atvik í líkingu við þetta. Í gegnum tíðina hafi starfsfólk Þingvalla hins vegar séð alls konar atvik.
Þá sagði hann að beint í kjölfar atviksins hefði starfsfólk þjóðgarðsins farið vel í gegnum málið og haldið fund þar sem þau ræddu málið. Hann sagði að það væri mjög gott að hleypa svona hlutum strax út og að þeir starfsmenn sem hefðu komið að málinu með beinum hætti hafi boðist öll möguleg aðstoð sem væri í boði.