Innlent

RÚV náði ekki sam­bandi við Pól­land og sýnir því ekki lands­leikinn

Árni Sæberg skrifar
Frá opinni æfingu landsliðsins á Laugardalsvelli um helgina.
Frá opinni æfingu landsliðsins á Laugardalsvelli um helgina. Vísir/Hulda Margrét

Margir hafa eflaust tekið eftir því að lokaleikur kvennalandsliðs Íslands í knattspyrnu fyrir Evrópumeistaramótið er hvergi sjáanlegur. Ástæðan er einföld; tæknilegir örðuleikar.

María Björk Guðmundsdóttir, dagskrárgerðarmaður og framleiðandi á Ríkisútvarpinu, segir í samtali við Vísi að ekki hafi náðst samband við Pólland og því sé engin útsending frá landsleiknum sem þar fer fram. Orsökin sé tæknilegs eðlis.

„Ég er bara miður mín en svona gerist í sjónvarpi eins og annars staðar,“ segir hún en hún efast um að merkið náist fyrir leikslok en fyrri hálfleik var að ljúka. Hálfleikurinn endaði ekki vel fyrir stelpurnar okkar en Ewa Pajor skoraði mark fyrir Pólland rétt í þessu.

Margir höfðu hlakkað til leiksins en hann er sá síðasti áður en lokakeppni á EM kvenna hefst þann 10. júlí. Leikurinn hefur verið kallaður „generalprufa“ fyrir EM. Þá stóð til að frumsýna nýjan landsliðsbúning en það eru fáir sem fá að bera hann augum í dag.

Eina leiðin fyrir okkur Íslendinga til að fylgjast með leiknum er í gegnum textalýsingu Fótbolta.net en útsendarar vefsins eru á vellinum í Póllandi. Textalýsing Vísis byggir á lýsingu Fótbolta.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×