Innlent

Jón biðst vel­virðingar á ó­ná­kvæmni

Árni Sæberg skrifar
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hefur beðist velvirðingar á ónákvæmni sinni.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hefur beðist velvirðingar á ónákvæmni sinni. Vísir/Vilhelm

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra biðst velvirðingar á ónákvæmni í orðum sínum um að þungunarrof nái til síðustu viku fram að barnsburði.

Dómsmálaráðherra sagði í viðtali á Vísi í gær að hann hefði kosið gegn frumvarpi um þungunarrof árið 2019 á þeim forsendum að það gerði ráð fyrir að þungunarrof gæti átt sér stað allt að síðustu viku fyrir barnsburð. Þingflokksformaður Pírata gagnrýndi ráðherran harðlega í samtali við Vísi í morgun.

Í skriflegu svari við frétt Vísis biðst Jón velvirðingar á ónákvæmni í orðum sínum.

„Frumvarpið sem varð að lögum og var til umræðu í þinginu 2019 nær til viku 22 en í umræðum í þinginu var hreyft við þeim sjónarmiðum að rétturinn til þungunarrofs ætti að ná skilyrðislaust til síðustu viku barnsburðar. Því var ég hjartanlega ósammála,“ segir hann.

Þá segist hann vera ósammála því að hversu nálægt var gengið lífvænleika fósturs sem 22 vikur eru skilyrðislaust.

„Ég taldi réttara að ganga ekki svo langt því þó að sjálfsákvörðunarréttur kvenna ætti að sjálfsögðu að vera í forgrunni mætti skilyrða að einhverju leyti ástæður þess þegar meðganga er komin svo langt á leið,“ segir Jón.

Aðalatriðið sé sem fyrr að réttur kvenna og leghafa á Íslandi til þungunarrofs er mikilvægur og rúmur borið saman við önnur nágrannalönd.

„Ég tel mikilvægt að svo verði áfram og um það ríki djúp og góð samstaða í okkar samfélagi og árétta að mér þykir þróun þessara mála í Bandaríkjunum ömurleg og ekki til eftirbreytni,“ segir Jón að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×