Handbolti

Ómar Ingi með stórleik fyrir nýkrýnda meistara

Hjörvar Ólafsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon lék á als oddi í leiknum. 
Ómar Ingi Magnússon lék á als oddi í leiknum.  Vísir/Getty

Ómar Ingi Magnússon fór á kostum þegar lið hans, Magdeburg, vann Leipzig, 36-31, í næstsíðustu umferð þýsku efstu deildarinnar í handbolta karla í dag. 

Ómar Ingi skoraði 13 mörk í leiknum, þar af sex úr vítaköstum. Hægri skyttan nýtti öll skot sín í leiknum. Ómar Ingi er nú næst markahæsti leikmaður deildarinnar með 231 mark en hann hefur skorað tveimur mörkum minna en Hans Lindberg sem trónir á toppi listans.

Bjarki Már Elísson, sem leikur fyrir Lemgo, er þriðji markahæsti leikmaður deildarinnar með 230 mörk. 

Gísli Þorgeir Kristjánsson bætti tveimur mörkum við í sarpinn fyrir Magdburg sem hefur nú þegar tryggt sér þýska meistaratitilinn. 

Viggó Kristjánsson skoraði svo sjö mörk og Andri Már Rúnarsson þrjú fyrir Stuttgart þegar liðið lagði Hamburg að velli, 32-27. Stuttgart tryggði nýverið veru sína í efstu deild á næsta keppnistímabili. 

Lærisveinar Heiðmars Felixsonar hjá Hannover-Burgdorf töpuðu naumlega, 21-20, fyrir Lübecke. Hannover-Burgdorf siglir lygnan sjó um miðja deild en Lübecke náði þarna í lífsnauðsynleg stig í baráttu sinni um að forðast fall úr deildinni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×