„Ég sótti innblásturinn í laginu aðallega úr villta villta vesturbæ,“ segir Bassi og þaðan kom nafnið Kúreki. Hann segir fjölbreytileikann og það að geta skapað eitthvað vera það skemmtilegasta við tónlistina.
„Og bara allt ferlið, lowkey.“
Innblástur vestanhafs
„Ég sæki innblástur í tónlist Nicki Minaj, Doja Cat og fleiri,“ segir Bassi og bætir við að hann sé almennt hrifinn af skvísu rappi. Aðspurður hvernig hann kemur sér í gírinn áður en hann spilar fyrir framan fólk segir hann einfaldlega:
„Geri mig sexy og fæ mér einn ískaldan kokteil, chileee.“
Tækifærin komu í kjölfar Æði
Það er ýmislegt spennandi á döfinni hjá Bassa, sem sló eftirminnilega í gegn með sínu fyrsta lagi Bassi Maraj og hefur vakið athygli í raunveruleikaþáttunum Æði.
„Ég er að klára heilt albúm sem ætti að droppa í lok sumars vonandi. Það verður algjör veisla og skemmtilegir aðilar sem koma að smíðum plötunnar.“
En hvernig hlúirðu að andlega heilsu og passar upp á jafnvægið þegar það er mikið að gera?
„Ég passa upp á að taka D vítamín og hreyfa mig nóg með Tímoni, hundinum mínum. Fer í fjallgöngur líka og borða góðan mat.“
Ætlaðirðu þér alltaf að vera tónlistarmaður?
„Já og nei. Mig hefur alltaf langað það en fannst það alltaf vera frekar mikið langsótt þangað til ég fór að gera Æði og Jóhann Kristófer hjálpaði mér að fara af stað í að gera tónlist.“
Hvernig gekk samstarfið með Daniil og Joey Christ? Munið þið sameina krafta ykkar aftur á næstunni?
„Mjög vel, strákarnir eru náttúrlega bara æði og hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér!“