Fótbolti

Stjórn KSÍ: Viðkomandi stígur til hliðar á meðan meðferð máls stendur yfir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmenn íslenska landsliðsins í knattspyrnu á leik á Laugardalsvelli.
Stuðningsmenn íslenska landsliðsins í knattspyrnu á leik á Laugardalsvelli. Vísir/Vilhelm

Stjórn Knattspyrnusambands Íslands hefur samþykkt viðbragðsáætlun KSÍ en málið var tekið fyrir á fundi stjórnar KSÍ 19. maí síðastliðinn og endanlega samþykkt á framhaldsfundi stjórnar 23. maí. KSÍ segir frá þessu á heimasíðu sinni í dag.

Þar kemur fram að ef mál einhvers hjá KSÍ eru til meðferðar hjá rannsóknar- eða ákæruvaldi og/eða samskiptaráðgjafa, vegna meintra alvarlegra brota, að þá skuli viðkomandi stíga til hliðar í hlutverki sínu hjá KSÍ á meðan meðferð máls stendur yfir.

Málið var tekið fyrir undir dagskrárliðnum "Fræðsla, verkferlar og vinnubrögð" þar sem rætt var um um skýrslu starfshóps KSÍ frá hausti 2021 og viðbrögð KSÍ. Einnig var rætt um skýrslu starfshóps ÍSÍ um verkferla, vinnubrögð og viðmið í íþróttahreyfingunni (apríl 2022).

Formaður KSÍ, Vanda Sigurgeirsdóttir, kynnti síðan tillögu um viðbragðsáætlun KSÍ. Málið var rætt en frekari umræðu var frestað til framhaldsfundar stjórnar 23. maí. Á framhaldsfundinum var neðangreint samþykkt:

Stjórn KSÍ samþykkti að haft sé að leiðarljósi það meginviðmið, þegar mál einstaklinga eru til meðferðar hjá rannsóknar- eða ákæruvaldi og/eða samskiptaráðgjafa, vegna meintra alvarlegra brota, að þá skuli viðkomandi stíga til hliðar í hlutverki sínu hjá KSÍ á meðan meðferð máls stendur yfir. Það gildir jafnt um dómara, þjálfara, leikmenn, forystumenn, starfsmenn og aðra þá sem eru innan KSÍ.

Þessi samþykkt tekur strax gildi. Stjórn KSÍ mun ræða önnur atriði í drögunum áfram og mun jafnframt óska eftir aðkomu laga- og leikreglnanefndar.

Stjórn KSÍ leggur líka mikla áherslu á að vandað sé til verka og að málið sé áfram unnið af ábyrgð, fagmennsku og yfirvegun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×