Innherji

Hagnaður Já eykst verulega og nemur nærri 80 milljónum

Hörður Ægisson skrifar
Vilborg Helga Harðardóttir hefur verið forstjóri Já frá árinu 2019.
Vilborg Helga Harðardóttir hefur verið forstjóri Já frá árinu 2019.

Tekjur hlutafélagsins Já, sem rekur vefsíðuna og appið já.is, ásamt því að veita upplýsingar í símanúmerinu 1818, hækkuðu um liðlega 15 milljónir á árinu 2021 og námu samtals tæplega 1.200 milljónum króna. Þá jókst hagnaður félagsins um 75 prósent á milli ára og var samtals um 78 milljónir.

Í skýrslu stjórnar Já, sem er einnig eigandi félagsins GI Rannsóknir sem starfar á sviði rannsókna og ráðgjafar undir merkjum Gallup á Íslandi og Markaðsgreiningar, í nýbirtum ársreikningi kemur fram að lagt sé til að greiða allt að 40 milljónir í arð til hluthafa. Eignarhaldsfélagið Njála fer með 99,9 prósenta hlut í félaginu en stærstu eigendur þess eru íslenskir lífeyrissjóðir í gegnum fagfjárfestasjóðinn AuÐur 1.

Fram kemur í skýrslu stjórnar að það hafi orðið tekjubati á milli ára þrátt fyrir að engar tekjur hafi fengist af rekstri Leggja á árinu 2021 sem var selt til EasyPark í árslok 2019. Félagið Já rak Leggja lausnina fyrir nýjan eigenda að stórum hluta á árinu 2020.

Rekstrarhagnaður Já nærri tvöfaldaðist á milli ára og var tæplega 106 milljónir króna. Launakostnaður félagsins jókst um 38 milljónir og var samtals um 670 milljónir króna. Stöðugildi héldust óbreytt á milli ára og voru 58 talsins.

Heildareignir stóðu í 858 milljónum í árslok 2021 og eigið fé í tæplega 531 milljón króna. Eiginfjárhlutfall félagsins var því um 62 prósent.

Fyrirtækin Já og Gallup sameinuðust undir merkjum Já hf. fyrir um sjö árum síðan. Í ársbyrjun í fyrra var félagið sett í formlegt söluferli sem verðbréfafyrirtækið Arctica Finance hafði umsjón. Það ferli skilaði sér hins vegar í ekki í sölu á fyrirtækinu.

Fagfjárfestasjóðurinn AuÐur 1 fer með ríflega 80 prósenta eignarhlut í Eignarhaldsfélaginu Njálu sem heldur utan um allt hlutafé Já. Aðrir hluthafar Njálu eru félagið SOKO, sem er í eigu Sigríðar Margrétar Oddsdóttur, forstjóra Lyfju, en hún var áður forstjóri Já til ársins 2019, með 14,3 prósenta hlut og félagið Volta, en það er í eigu Kjartans Arnar Ólafssonar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×