Í skýrslu stjórnar Já, sem er einnig eigandi félagsins GI Rannsóknir sem starfar á sviði rannsókna og ráðgjafar undir merkjum Gallup á Íslandi og Markaðsgreiningar, í nýbirtum ársreikningi kemur fram að lagt sé til að greiða allt að 40 milljónir í arð til hluthafa. Eignarhaldsfélagið Njála fer með 99,9 prósenta hlut í félaginu en stærstu eigendur þess eru íslenskir lífeyrissjóðir í gegnum fagfjárfestasjóðinn AuÐur 1.
Fram kemur í skýrslu stjórnar að það hafi orðið tekjubati á milli ára þrátt fyrir að engar tekjur hafi fengist af rekstri Leggja á árinu 2021 sem var selt til EasyPark í árslok 2019. Félagið Já rak Leggja lausnina fyrir nýjan eigenda að stórum hluta á árinu 2020.
Rekstrarhagnaður Já nærri tvöfaldaðist á milli ára og var tæplega 106 milljónir króna. Launakostnaður félagsins jókst um 38 milljónir og var samtals um 670 milljónir króna. Stöðugildi héldust óbreytt á milli ára og voru 58 talsins.
Heildareignir stóðu í 858 milljónum í árslok 2021 og eigið fé í tæplega 531 milljón króna. Eiginfjárhlutfall félagsins var því um 62 prósent.
Fyrirtækin Já og Gallup sameinuðust undir merkjum Já hf. fyrir um sjö árum síðan. Í ársbyrjun í fyrra var félagið sett í formlegt söluferli sem verðbréfafyrirtækið Arctica Finance hafði umsjón. Það ferli skilaði sér hins vegar í ekki í sölu á fyrirtækinu.
Fagfjárfestasjóðurinn AuÐur 1 fer með ríflega 80 prósenta eignarhlut í Eignarhaldsfélaginu Njálu sem heldur utan um allt hlutafé Já. Aðrir hluthafar Njálu eru félagið SOKO, sem er í eigu Sigríðar Margrétar Oddsdóttur, forstjóra Lyfju, en hún var áður forstjóri Já til ársins 2019, með 14,3 prósenta hlut og félagið Volta, en það er í eigu Kjartans Arnar Ólafssonar.