Það voru fjölmargir, sem mættu við Flóðgátt Flóaáveitunnar í Flóahreppi í gær á athöfn, sem boðað var til vegna afhjúpunar nýs upplýsingaskiltis á staðnum og 100 ára afmælisins. Að sjálfsögðu var flaggað í tilefni dagsins.
Hátíðin var líka til minningar um Þór Vigfússon, fyrrverandi skólameistara Fjölbrautaskóla Suðurlands en hann elskaði Flóaáveituna og allt í kringum hana. Ekkja hans, Hildur Hákonardóttir afhjúpaði skiltið, sem Björn G. Björnsson hannaði og á heiðurinn af.
Einnig fékk vegurinn að Flóðgáttinni nafn, Þórsvegur.
„Það er óskaplega gaman að halda þessu, halda sögunni á lofti,“ segir Hildur alsæl með daginn.
Guðni Ágústsson var viðburðarstjóri gærdagsins.
„Þetta var kraftaverk, 300 kílómetrar voru grafnir með höndunum hér um allan Flóann af aflmiklum mönnum. Það var erfiðasta vinnan, sem menn á þeim tíma komust í, það var akkorðsvinna og ekki fyrir neina aumingja,“ sagði Guðni.
Eftir afhjúpun skiltisins var farið að Flóðgáttinni sjálfri og þar opnað fyrir vatnið úr Hvítá og skurðir fylltir af vatni.
„Flóinn var fátæktarsvæði í Árnessýslu. Í Ölfusi fengu ferðamenn vatn, í Flóanum undanrennu, upp á skeiðum mjólk og upp í hrepp rjóma. Þetta var mælikvarði á auðleg þessa héraðs,“ bætir Guðni við.