Fréttablaðið greinir frá þessu. Ljóðabálkurinn ber heitið „Lítil saga“ og var skrifaður áður en fyrsta ljóðabók Davíðs, Svartar fjaðrir, kom út. Ljóðin voru tileinkuð Helgu Gunnlaugsdóttur frá Ytri-Reistará, sem var góð vinkona Davíðs í æsku.
Ljóðin voru varðveitt af Stefáni Lárusi Árnasyni, syni Helgu, í gegnum árin. Dætur Stefáns færðu Davíðshúsi þau síðan á dögunum.
„Það er byrjendabragur á kvæðinu, en angurværðin er í anda Davíðs, segir mér fróðara fólk,“ segir Haraldur Þór Egilsson, safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri í samtali við Fréttablaðið. Haraldur bar ljóðin undir sérfræðinga í höfundarferli Davíðs og telja þeir að Davíð hafi skrifað ljóðin.