Innlent

Bjarni óskar eftir hraðri af­greiðslu Al­þingis á verð­bólgu­að­gerðum

Heimir Már Pétursson skrifar
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. Vísir/Sigurjón

Fjármálaráðherra óskar eftir því að Alþingi afgreiði með hraði frumvarp um sérstakar aðgerðir til að koma til móts við viðkvæmustu hópa samfélagsins vegna aukinnar verðbólgu.

Aðgerðirnar sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti í dag eru í megindráttum þrískiptar. Fólk sem fær barnabætur fær eingreiðslu, sérstakan barnabótaauka hinn 1. júlí, upp á 20 þúsund krónur með hverju barni vegna ársins í ár með þeim börnum sem áttu heimili hér á síðasta ári.

„Sérstakur barnabótaauki telst ekki til skattskyldra tekna og leiðir ekki til skerðingar annarra tekna svo sem bóta frá Tryggingastofnun ríkisins. Þá verður hinum sérstaka barnabótaauka ekki skuldajafnað á móti vangreiddum opinberum gjöldum til ríkissjóðs eða sveitarfélaga eða vangreiddum meðlögum,“ sagði Bjarni þegar hann mælti fyrir frumvarpinu á Alþingi í dag.

Í frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir að bætur almannatrygginga og vegna félagslegrar aðstoðar hækki um þrjú prósent frá 1. júní umfram fyrri hækkanir um áramótin. Þá verða húsaleigubætur hækkaðar.

„Hér er lagt til að grunnfjárhæð húsnæðisbóta hækki um 10 prósent frá 1. júní næst komandi og að frítekjumörk húsnæðisbóta hækki jafnframt um þrjú prósent til samræmis við fyrirhugaða hækkun almannatrygginga. Lagt er til að hækkun frítekjumarka um þrjú prósent taki gildi með afturvirkum hætti frá 1. janúar á þessu ári,“ sagði Bjarni Benediktsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×