Samfylking, Framsóknarflokkur og Bein leið hafa frá 2018 verið í meirihluta í Reykjanesbæ en í minnihluta eru Sjálfstæðisflokkur, Miðflokkur og Píratar og óháðir.
Nýtt framboð er Umbót en það er klofningsframboð úr Miðflokknum og oddviti þess er sá sami og var oddviti Miðflokks í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Bæjarstjóri Reykjanesbæjar er Kjartan Már Kjartansson sem var ráðinn á faglegum forsendum árið 2014.
Leikskólamál eru ofarlega í huga frambjóðenda flokkanna.
„Atvinnulíf verður að vera fjölbreytt og öflugt atvinnulíf er forsendan. Það verður að vera leikskólapláss fyrir átján mánaða börn og eldri,“ segir Margrét Sanders oddvidi Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ og Friðjón Einarsson, oddviti Samfylkingar og óháðra, sagði alla áherslu flokksins vera á fjölskylduna á börnin.
Oddviti Beinnar leiðar vill halda áfram á þeirri leið sem meirihlutinn hefur verið á kjörtímabilinu.
„Áframhaldandi ábyrg fjármálastjórn og áframhaldandi uppbygging leik- og grunnskólanna,“ segir Valgerður Björk Pálsdóttir oddviti flokksins.
Miðflokkurinn vill sömuleiðis setja málefni barna á oddinn og þá vilja Píratar aukið íbúalýðræði og bindandi kosningar í umdeildum málum.
Heilbrigðismálin mikilvæg
Þegar rætt er við íbúa Reykjanesbæjar er ljóst að málin sem brenna á þeim eru fjölbreytt. Aukið fé í íþróttir, heilbrigðismál. skólamál og málefni eldri borgara eru meðal þeirra sem nefnd voru.
„Eitt af því sem er mikilvægt er að kísilverksmiðjan fari ekki aftur af stað,“ sagði Ægir Karl Ægisson íbúi í bænum. Kísilverksmiðjan í Helguvík hefur staðið ónotað síðan haustið 2017 þegar Umhverfisstofnun stöðvaði rekstur hennar vegna ítrekaðra kvartana íbúa um mengun sem þaðan barst.
„Ég vil ekki gleyma heilsugæslunni. Mér er mikið í mun að það sé hlúð vel að henni og það þarf virkilega að taka til höndum,“ segir Nanna Jónsdóttir blómaskreytir.