Handbolti

Orri skoraði fimm og Elverum er einum sigri frá úrslitum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Orri Freyr Þorkelsson í leik með íslenska landsliðinu.
Orri Freyr Þorkelsson í leik með íslenska landsliðinu. Sanjin Strukic/Pixsell/MB Media/Getty Images

Orri Freyr Þorkelsson átti góðan leik er norsku meistararnir í Elverum unnu öruggan tíu marka sigur í undanúrslitum norsku úrslitakeppninnar gegn Nærbø í handbolta í kvöld, 34-24. Elverum hefur nú unnið fyrstu tvær viðureignir liðanna og er því aðeins einum sigri frá úrslitaeinvíginu.

Gestirnir í Elverum settu tóninn snemma leiks og skoruðu átta af fyrstu tíu mörkum leiksins. Íslendingaliðið hleypti heimamönnum aldrei nálægt sér í fyrri hálfleik og fór með sjö marka forskot inn í hléið í stöðunni 17-10.

Meira jafnræði var með liðunum í síðari hálfleik, en sigur Elverum var aldrei í hættu. Liðið vann að lokum tíu marka sigur, 34-24.

Orri Freyr Þorkelsson var atkvæðamikill í sóknarleik gestanna með fimm mörk, en Aron Dagur Pálsson komst ekki á blað. Elverum getur nú tryggt sér sæti í úrslitum með sigri á heimavelli í þriðja leik liðanna sem fram fer á miðvikudaginn eftir viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×