Helena Ólafsdóttir og sérfræðingar hennar skoðuðu betur þátt áhorfenda í vítaklúðrinu á fjórðu mínútu í uppbótatíma. Blikar höfðu verið í stórsókn allan leikinn en ekki fundið leiðir fram hjá markverðinum frábæra hjá Keflavík.
Áður en Natasha Anasi, fyrrum leikmaður Keflavíkur, tók vítið þá lágu nær allir bílstjórar í kringum völlinn á bílflautunni.
„Mér fannst ég bara vera komin á Neskaupstað þegar ég var að horfa á leiki þar í gamla daga,“ sagði Helena Ólafsdóttir, umsjónarkona Bestu markanna.

Samantha Leshnak Murphy átti stórleik og varði vítið á glæsilegan hátt. Hún varði alls fjórtán skot frá Blikum í þessum leik.
„Sjáið hvernig Keflavíkurstelpurnar bregðast við. Þær hafa fulla trú á þessu, eru allar klárar á línunni því hún sé að fara að verja þetta. Þetta kom þeim ekkert á óvart,“ sagði Margrét Lára Viðarsdóttir, sérfræðingur í Bestu mörkunum.
„Talandi um bílflautu þá eru flestir sem fá svona óþægilega tilfinningu þegar þeir heyra hana. Ég elska bílflautið og ef það þarf að peppa mig eitthvað í framtíðinni þá bara nóg af bílflautum,“ sagði Margrét Lára í léttum tón.
„Ég hafði samt bara haldið að Natasha hefði fengið góða tilfinningu í þessari stöðu því hún er vön úr Keflavík og úr Eyjum. Þetta truflaði hana greinilega aðeins“ sagði Margrét.
„Natöshu til varnar þá er þetta ekkert skelfilega vítaspyrna. Þetta er bara ógeðslega vel varið hjá Samönthu,“ sagði Mist Rúnarsdóttir, sérfræðingur í Bestu mörkunum.
Það má sjá vítavörsluna og umræðuna hér fyrir neðan.