Uppfært klukkan 01:22: Mari og Þorleifur hafa klárað 40. hringinn, alls 268 kílómetra, og eru byrjuð á hring 41.
Elísabet Margeirsdóttir, einn aðalskipuleggjenda hlaupsins, segir að árangur keppendanna hafi farið fram úr björtustu vonum og hún hafi jafnvel gert ráð fyrir því að vera búin að pakka öllu saman í hádeginu í dag. Alls hófu 122 þátttakendur leik í gærmorgun.
Þetta er í þriðja sinn sem Náttúruhlaup halda keppnishlaupið Bakgarð. Þorleifur sigraði fyrstu keppnina árið 2020 og Mari bar sigur úr býtum í fyrra. Bæði enduðu þau hlaupið á 25 hringjum og er Íslandsmetið í Bakgarðshlaupi því kolfallið.
Endar ekki fyrr en einn keppandi stendur eftir
Keppnin gengur út á að keppendur hlaupi 6,7 kílómetra hring á einni klukkustund. Ef hann klárast fyrr geta þeir nýtt restina af tímanum til að hvíldar áður en hlaupið hefst aftur á heila tímanum. Leiðin liggur áð þessu sinni um Öskjuhlíð og Nauthólsvík í Reykjavík.
Elísabet segir að stemningin sé góð og Mari og Þorleifur virðist hafa verið hressari í lok seinasta hrings en fyrr í kvöld. Hringurinn lokast við Mjölnisheimilið í Öskjuhlíð þar sem góð aðstaða er fyrir keppendur. Að sögn Elísabetar fylgist fjöldi fólks með hlaupinu og fyllir bílastæðið við Mjölni korter í heila tímann þegar von er á keppendunum.
Bilið hafi minnkað milli Mari og Þorleifs á seinasta hring og þau bæði klárað hann á um 52 til 53 mínútum. Hún segir öflugt stuðningslið hvetja báða keppendur áfram og óljóst sé hvenær hlaupinu loks ljúki.