Hart var tekist á um málið í nótt enda var þing komið saman í fyrst sinn eftir páskafrí og tóku fjölmargir þingmenn þátt í umræðunni sem hófst klukkan fimm síðdegis í gær og stóð yfir til að verða klukkan þrjú í nótt.
Ríkisstjórn Íslands fundaði þá í morgun í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu en bankasalan var ekki til umræðu á fundi ríkisstjórnarinnar. Mótmælendur voru hins vegar saman komnir fyrir utan bústaðinn til að mótmæla sölunni og kölluðu þeir „Bjarna burt!“ þegar ráðherrar gengu út og á meðan þeir ræddu við fréttamenn.
Á morgun munu fulltrúar Bankasýslunnar koma fyrir opinn fund fjárlaganefndar þingins til að svara fyrir söluna en sá fundur átti upphaflega að fara fram í gær. Honum var hins vegar frestað með skömmum fyrirvara að beiðni Bankasýslunnar.
Gert er ráð fyrir því samkvæmt dagskrá þingfundar að umræða um bankasöluna hefjist í fyrsta lagi klukkan 16.
Hægt er að horfa á þingfundinn í spilaranum hér að neðan.