Ætli Haukakonur að lenda ekki aftur undir í einvíginu þá þurfa þær að gera eitt sem þeim hefur ekki tekist í þremur öðrum tilfellum á tímabilinu. Það er að vinna Njarðvíkurkonur á heimavelli sínum.
Njarðvíkurliðið hefur mætt þrisvar sinnum á Ásvelli í vetur og unnið í öll skiptin. Fyrst átta stiga deildarsigur í október (66-58), þá átta stiga deildarsigur í febrúar (78-70) og loks ellefu stiga sigur í leik eitt í einvíginu (70-59).
Það er líka fróðlegt að skoða sigurhlutfall Haukanna á Ásvöllum í vetur. Haukakonur eru aðeins með fimmtíu prósent sigurhlutfall á heimavelli sínum, bæði í deildinni (6 sigrar og 6 töp) sem og í úrslitakeppninni (1 sigur og 1 tap).
Njarðvíkurkonur eru því með tvöfalt hærra sigurhlutfall á Ásvöllum í vetur (100 prósent) heldur en heimakonur (50 prósent).
Haukakonur hafa af einhverjum ástæðum verið mun betri á útivelli í vetur þar sem liðið hefur unnið tólf af fimmtán leikjum sínum eða 80 prósent leikjanna.
Leikur Hauka og Njarðvíkur hefst klukkan 19.15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2. Á undan verður upphitun Subway Körfuboltakvölds frá klukkan 18.45 á sömu rás og leikurinn verður síðan gerður upp að honum loknum.
- Sigurhlutfall á Ásvöllum í Subway deildinni í vetur:
- Njarðvíkurkonur 100 prósent
- (3 sigrar í 3 leikjum)
- Heimakonur í Haukum 50 prósent
- (7 sigrar í 14 leikjum)
- -
- Sigurhlutfall utan Ásvalla í Subway deildinni í vetur:
- Haukakonur 80 prósent
- (12 sigrar í 15 leikjum)
- Njarðvíkurkonur 59 prósent
- (16 sigrar í 27 leikjum)