Handbolti

Enginn í bann en ummæli Björgvins Páls fara fyrir aganefnd

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stjórn HSÍ var ekki sátt með ummæli Björgvins Páls Gústavssonar, markvarðar Vals, eftir leikinn gegn Fram.
Stjórn HSÍ var ekki sátt með ummæli Björgvins Páls Gústavssonar, markvarðar Vals, eftir leikinn gegn Fram. vísir/Hulda Margrét

Þeir þrír leikmenn sem fengu rautt spjald í leikjunum í úrslitakeppni Olís-deildar karla í handbolta í gær sluppu allir við bann. Ummæli Björgvins Páls Gústavssonar, markvarðar Vals, eftir leikinn gegn Fram fara hins vegar fyrir aganefnd.

Eftir leikinn gegn Fram, sem Valur vann með tíu marka mun, 34-24, gaf Björgvin Páll í skyn að leikmenn Fram hefðu skotið viljandi í höfuð sitt.

„Ég átti von á að þeir myndu berja okk­ur í and­litið og ég átti von á því að þeir fengju rautt spjald. Ég átti von á því að fá bolt­ann yfir haus­inn og í haus­inn. Þetta er það sama og gerðist í síðasta leik og það eru skýr skila­boð. Þeir ætla að fara þannig út,“ sagði Björgvin við mbl.is eftir leikinn á Hlíðarenda í gær.

„Annaðhvort gera þeir þetta vilj­andi eða eru svona lé­leg­ir. Ég veit þeir eru góðir hand­bolta­menn, svo það hlýt­ur að vera það fyrra. Ég er bú­inn að fá fjög­ur skot í haus­inn frá þeim í tveim­ur leikj­um. Þeir vita að ég fékk skot í haus­inn um dag­inn og það er um að gera að keyra á það þá. Þetta er mjög skyn­sam­legt hjá þeim. Það eru skýr skila­boð að skjóta yfir haus­inn á mér eða í haus­inn á mér. Þeir verða að svara fyr­ir það.“

Framkvæmdastjóri HSÍ sendi erindi fyrir hönd stjórnar sambandsins til aganefndar vegna ummæla Björgvins. Handknattleiksdeild Vals hefur frest til klukkan 11:00 til að skila inn greinargerð vegna málsins.

Annar leikur Vals og Fram verður í Safamýrinni á sunnudaginn kemur. Ef allt fer á versta veg gæti Björgvin Páll misst af leiknum. Með sigri í honum tryggja Valsmenn sér sæti í undanúrslitum.

Þorsteinn Gauti Hjálmarsson og Arnór Snær Óskarsson fengu báðir rautt spjald í leiknum á Hlíðarenda en sleppa við leikbann. Sömu sögu er að segja af Degi Arnarssyni, leikmanni ÍBV, sem var rekinn út af í sigrinum á Stjörnunni, 35-26, í Eyjum í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×