Jovan, sem er 34 ára Serbi, er reynslumikill markvörður sem leikið hefur á Íslandi um árabil. Hann lék með Víkingi í vetur en var áður á Akureyri og lék þar með KA, Þór og Akureyri.
Samkvæmt tölfræðivef HB Statz var Jovan með 31,4% markvörslu í vetur. Hann varði að meðaltali 10,2 skot í leik og var hann þar í 7. sæti yfir markverði deildarinnar.
Andri Sigmarsson Scheving var aðalmarkvörður Aftureldingar í vetur en hann var hjá félaginu sem lánsmaður frá Haukum. Hann endaði í 9. sæti yfir markverði deildarinnar í vetur með 9,3 varin skot í leik og 30,6% markvörslu.
Tímabilinu er lokið hjá Aftureldingu sem endaði í 9. sæti Olís-deildarinnar og missti af sæti í úrslitakeppninni vegna innbyrðis úrslita í leikjum við Fram og Gróttu.