Burstabærinn hans Sigfúsar Kristinssonar, sem er yfirleitt kallaður Fúsi Kristins stendur við Bankaveg, mjög fallegt hús, sem vekur athygli rétt við miðbæ Selfoss. Fúsi, sem er rétt að verða níræður á fjölmörg hús á Selfossi, sem hann leigir út og þá hefur hann byggt fjölmörg í bæjarfélaginu. Hann hefur alltaf verið afkastamikill smiður og í mörg ár með margt fólk í vinnu.
Burstabærinn hefur verið gæluverkefni Fúsa en hann er og má vera stoltur af húsinu, sem er búið að innrétta að innan og verður sett í leigu fljótlega. Það heitir Fagribær og er um 100 fermetrar á tveimur hæðum.
„Ég teiknaði þetta sjálfur allt saman og lagði fyrir byggingarnefnd. Það tók nú eins langan tíma að koma þessu í gegnum byggingarnefnd eins og að byggja bústaðinn held ég, það var svolítið þungt að koma þessu í gegn. Ég er mjög stoltur af húsinu, það lukkaðist afskaplega vel að byggja þetta,“ segir Fúsi.

Þetta er nú ekki fyrsta húsið sem þú byggir á Selfossi?
„Nei, þau eru svo mörg að ég hef ekki tölu á þeim, það er svo mikið.“
Fúsi segir að mjög margt hafi breyst með byggingar húsa frá því að hann var að læra og að byrja að byggja sín fyrstu hús.
„Já, þetta var svo einfalt hér áður fyrr, nú eru reglugerðir endalaust, helvítis reglugerðir í bak og fyrir, úttektir og vesen. Íslendingar fara fram úr sér áður en þeir vita af, Íslendingar eru þannig, framkvæma hlutina og redda svo hlutunum einhvern veginn eftir á,“ segir Fúsi og hlær.
En ætlar Fúsi að halda áfram að byggja hús eða er hann hættur?
„Nei, nei, ég held áfram að byggja, það er ekki spurning.“
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra heimsótti Fúsa nýlega í burstabæinn. Hann hafði gaman af þeirri heimsókn.
„Jú, jú, það er allt í lagi með hana, hún er eins og skólastelpa að hitta hana, hún leynir svolítið á sér, kollurinn er í góðu lagi á henni,“ segir Fúsi.
Fúsi segist ætla að leigja burstabæinn út til einhverrar fjölskyldu en það gerist þó ekki fyrr en eftir sveitarstjórnarkosningarnar 14. maí því kosningaskrifstofa Vinstri grænna verður í húsinu og var það skjalfest með undirritun leigusamnings í Fagrabæ á dögunum.
