Jakob Valgeir Flosason fjárfestir segist í samtali við Fréttablaðið í dag hafa áhyggjur af verðinu sem ríkið fékk fyrir hlutinn. Algjör óþarfi hafi verið að gefa eins mikinn afslátt og ákveðið var að gefa.
Jakob Valgeir keypti fyrir tæpan milljarð í bankanum og segir kaupendur einfaldlega hafa fylgt reglum útboðsins. Að hans mati hefði ríkið hinsvegar átt að selja til fárra en öflugra kjölfestufjárfesta, og bendir hann á að það hafi raunar verið talað um að gera það í upphafi. Það hafi hinsvegar ekki verið gert.
Hann segir lífeyrissjóðina hafa þrýst verðinu niður í 117 krónur á hlut, en segist vita það fyrir víst að ríkið hefði getað selt á genginu 122 krónur, ef það hefði einbeitt sér að þeim sem voru tilbúnir til að borga meira.