Tónlist

Sýndar­popp­stjarna er í dag popp­stjarna og kemur fram á Húrra

Hjalti Freyr Ragnarsson skrifar
Hayden Dunham kemur fram sem HYD annað kvöld. Sem sýndarpoppstjarnan Quinn Thomas, eða QT, hefur hún komið fram í tónlistarmyndbandi, stuttmynd, á glás af tónleikum ásamt fleiru.
Hayden Dunham kemur fram sem HYD annað kvöld. Sem sýndarpoppstjarnan Quinn Thomas, eða QT, hefur hún komið fram í tónlistarmyndbandi, stuttmynd, á glás af tónleikum ásamt fleiru. Bobbi Salvor Menuez

Á laugardagskvöld verður blásið til tilraunatónleika á skemmtistaðnum Húrra, undir yfirskriftinni The Exterior. Þar kemur fram HYD, sem lýst væri sem hvalreka í ákveðnum kreðsum, ásamt Countess Malaise, Ketracel, DJ XWIFE, Alfreð Drexler, Psalixera, Echinacea og öðru samstarfsfólki.

Hluti af ágóðanum mun renna til góðgerðarsamtaka og neyðaraðstoðar vegna yfirstandandi stríðsátaka í Úkraínu.

HYD er tónlistarviðurnefni Hayden Dunham gjörningalistamanns, sem er kannski hvað þekktast fyrir að hafa verið sýndarpoppstjarnan QT í tónlistarmyndbandi sem var samtímis auglýsing fyrir orkudrykk árið 2015. 

Lagið, Hey QT, er þó sungið af Harriet Pittard og samið af Sophie og A.G. Cook. Þetta var tiltölulega snemma á þeirra ferli, en frægðarsól þeirra innan framúrstefnulegar popptónlistar hefur skinið skært síðan þá. Sophie féll frá af slysförum fyrir ári síðan, aðeins 34 ára gömul.

Samnefnd fyrsta stuttskífa HYD kom út í nóvember á síðasta ári og er hún ásamt smáskífum af henni það fyrsta sem Hayden sendir frá sér af eigin tónlist. Skífan er unnin í samstarfi við áðurnefndan A.G. Cook, stofnanda PC Music útgáfunnar, ásamt Caroline Polachek, umru, Jónsa, Alex Somers, EasyFun, Nomak og fleirum. 

Lagið No Shadow af plötunni samdi Hayden þegar hún missti sjónina tímabundið árið 2017, og fjallar það um samband hennar við alltumlykjandi myrkrið sem fylgdi sjónleysinu og hvernig það endurmótaði upplifun hennar á umheiminum.

Samkvæmt viðburðarhaldara einkennist hljómur HYD af hvísluðum söng, loftkenndum dropahljóðum, skörpum skiptingum og risavöxnum hljóðgervlum. Ýmislegt í þessari lýsingu minnir um margt á hljóðheim tengdan PC Music útgáfunni, sem er vægast sagt einkennandi. HYD hefur þó skorið sér út greinilega, ASMR-tengda, andlega og jarðneska sérstöðu innan þessarar kreðsu, sem stundum hefur verið kennd við hyperpop, eða ofurpopp.

Einnig kemur fram rappnaglinn Countess Malaise, sem er með kraftmeiri framkomu á sviði en flest tónlistarfólk landsins. Hún er sögð „óttalaus og óræð“ og að „uppreisnarandi hennar og öflug framkoma á sviði“ geri hana að listamanni sem vert er að gefa gaum.

Countess Malaise er listamannsnafn Dýrfinnu Benitu, sem einnig starfar sem myndlistarkona. Hún er einn hluti myndlistarþríeykisins Lucky 3 sem hlaut á dögunum Hvatningarverðlaun Íslensku myndlistarverðlaunanna.

Jafnframt var plata Countess frá því í fyrra, Maldita, tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir rappplötu ársins og lagið Hit It af plötunni tilnefnt sem rapplag ársins.

Alfreð Drexler heitir alræmdur taktsmiður sem einnig mun stíga á stokk á laugardaginn. Hann myndar ásamt Lord Pusship raftvíeykið Psychoplasmics en vinnur einnig með ýmsum röppurum eins og áðurnefndri Countess Malaise, MV Elyahsyn og Svarta Laxness. Um þessar mundir vinnur hann í sinni fyrstu sólóplötu sem væntanleg er í lok maí og ber titilinn Drexler's Lab.

Ásamt þeim koma fram ýmsir fleiri „hljóðmótarar“ á borð við Ketracel, DJ XWIFE, Psalixera og Echinacea.


Tengdar fréttir

„Stjarna okkar kynslóðar“ fallin frá 34 ára að aldri

Skoska tónlistarkonan og pródúsentinn SOPHIE lést aðfaranótt laugardags, 34 ára að aldri. Samkvæmt yfirlýsingu frá útgefanda hennar Transgressive rann hún og féll eftir að hafa klifrað upp til að virða fyrir sér fulla tunglið. 

Jónsi og Robyn senda frá sér hið „fullkomna popplag“

Jónsi og sænska poppstjarnan Robyn sendu í dag frá sér nýtt lag, Salt Licorice. Lagið er af væntanlegri sólóplötu Jónsa, hans fyrstu í áratug. Platan kemur út á vegum Krunk útgáfunnar þann 2.október.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×