Körfubolti

Njarðvíkinga þyrstir í titil

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aliyah Collier er fjórði stigahæsti leikmaður Subway-deildarinnar með 23,6 stig að meðaltali í leik.
Aliyah Collier er fjórði stigahæsti leikmaður Subway-deildarinnar með 23,6 stig að meðaltali í leik. vísir/sigurjón

Aliyah Collier segir Njarðvíkinga hungraða í að binda endi á langa titlaþurrð félagsins. Njarðvík varð tvöfaldur meistari 2012 en hefur ekki unnið titil síðan þá. En það gæti breyst um helgina.

Njarðvík mætir Haukum í seinni undanúrslitaleik VÍS-bikars kvenna. Haukar eiga titil að verja eftir að hafa unnið Fjölni í úrslitaleiknum á síðasta tímabili.

„Liðið nálgast þennan leik eins og alla aðra. Ég undirbý mig bara, horfi á myndbönd og sé hvað ég get gert betur frá síðustu leikjum gegn þeim,“ sagði Aliyah í samtali við Vísi.

Hún segir að leikmenn Njarðvíkur séu staðráðnir í að vinna bikarinn sem er í boði um helgina.

„Þetta er mjög stórt. Við erum stolt af því að vera komin svona langt. Það er mjög gott að vera komin í bikarhelgina. Við tökum þessu af fullri alvöru,“ sagði Aliyah.

Njarðvík, sem er nýliði, er í 4. sæti Subway-deildarinnar. „Við erum mjög ánægður og höfum spilað mjög vel. Eina sem við getum gert er að bæta okkur enn frekar,“ sagði Aliyah.

Njarðvík og Haukar hafa mæst fjórum sinnum í vetur og hvort lið unnið tvo leiki. Aliyah segir að Njarðvíkingar þurfi að vera upp á sitt allra besta til að vinna Hauka í kvöld.

„Við þurfum bara að spila okkar leik. Þær eru með gott lið, frábæra leikmenn og spila á sínum styrkleikum. Við þurfum að gera það sama og forðast að láta draga okkur í þeirra leik og þá held ég að útkoman verði góð,“ sagði Aliyah að endingu.

Leikur Njarðvíkur og Hauka hefst klukkan 20:00 og verður í beinni textalýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×